Stærsta sjávarútvegssýning heims, Seafood Global, fór fram í Brussel í síðasta mánuði. Fjöldi íslenskra fyrirtækja var samankominn í Belgíu, en ríflega 30 þúsund gestir víðsvegar að úr heiminum sóttu sýninguna.
Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, markaðsstjóri Samskipa, var ein fjölmargra Íslendinga á svæðinu en hún var að sækja sína fyrstu sjávarútvegssýningu. Að hennar sögn er mikil upplifun að taka þátt í sýningu sem þessari.
„Þegar maður kemur í fyrsta skipti á svona sýningu kynnist maður geiranum mjög vel og það er ótrúlega skemmtilegt. Maður sér bæði íslensku viðskiptavini okkar og hvernig þeir koma sínum vörum á framfæri og þann metnað sem þeir hafa. Maður sér einnig samkeppnina og kynnist öðru sem er í gangi. Það var líka mjög áhugavert að sjá hvað það er mikil þróun í gangi í fiskvinnsluvélum og mikill spenningur fyrir þeim geira almennt.“
Vettvangur til góðra verka
Spurð um mikilvægi sjávarútvegssýninga fyrir fjölþátta flutningafyrirtæki á borð við Samskip segir Þórunn Inga það vera mikið. Þá sé sýningin góður vettvangur til að styrkja tengsl við núverandi viðskiptavini auk þess að leita uppi ný tækifæri.
„Samskip fara fyrst og fremst á þessa sýningu til að hitta núverandi viðskiptavini og finna ný tækifæri. Við vorum 37 sem unnum á básnum hjá Samskipum og komum alls staðar að úr heiminum. Í sumum tilfellum erum við að reyna að auka þjónustu okkar og viðskipti en það er jafnframt mikill straumur fólks á básinn sem er að skoða hvað við getum gert fyrir þau,“ segir Þórunn Inga og bætir við að mikið hafi verið lagt upp úr því að hafa bás fyrirtækisins á sýningunni sem bestan. Þess utan hafi áhersla verið lögð á að vera með starfsfólk með sérþekkingu á hinum ýmsu sviðum.
Sjá má fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum.
Fólk frá öllum heimshornum tók þátt í sýningunni.