Íslendingar eru enn að mörgu leyti í fararbroddi þegar kemur að rannsóknum í sjávarútvegi en hætta er á því að Ísland dragist aftur úr ef ekki kemur til aukinnar innspýtingar fjármagns í rannsóknir og þróun. Þetta er mat Harðar Guðjóns Kristinssonar, rannsóknar- og nýsköpunarstjóra hjá Matís, sem segir enn stórt áhersluatriði hjá stofnuninni að huga að því hvernig hægt sé að búa til frekari hliðarafurðir úr fisknum.
Hörður segir Íslendinga að mörgu leyti í fararbroddi þegar kemur að rannsóknum í sjávarútvegi en að betur megi ef duga skal. Hætta sé á að Ísland dragist aftur úr og bendir hann í því samhengi á að framlög til AVS-rannsóknarsjóðsins, sem stendur fyrir aukið virði sjávarfangs, hafi staðið í stað í nokkurn tíma.
„Stóra áskorunin er að ná sem mestu úr hráefnunum sem við fáum og nota til þess sem minnsta orku með skilvirkari veiðum og vinnslu. Að ná að kreista eins mikil verðmæti úr hverju kílói sem við veiðum og nýta fiskinn 100%. Við erum ekki komin þangað. Við erum að nálgast 80% ef við skoðum þorskinn,“ segir Hörður.
Að sögn Harðar kom ákveðið stökk hvað nýtingarhlutfallið varðar þegar AVS-sjóðurinn var stofnaður árið 2003. Þá hafi verið sett mikið fjármagn í rannsóknir og þróun sem skilaði bæði betri nýtingu á fiski á Íslandi og jók einnig verðmæti á hvert kíló sem veitt er.
Til að mynda hafi verið veidd um 460.600 tonn af þorski árið 1981 en 252.800 tonn árið 2017. Þrátt fyrir næstum helmingi minni veiði var úflutningsverðmætið um 60% meira.
Hann segir íslensk fyrirtæki hafa selt mikið af mjög flottum tæknilausnum sem þróaðar hafa verið hér á landi í gegnum árin erlendis. „Aðrar þjóðir eru farnar að nota svipaða tækni og við höfum þróað hér innan lands. Það kemur að því að þær ná okkur ef við höldum ekki áfram að þróast.“
Matís er rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki og hefur t.a.m. samstarfssamning við Háskóla Íslands en vinnur einnig náið með fyrirtækjum og frumkvöðlum, t.d. þeim sem eru staðsett í Sjávarklasanum. Matís þjónar því oft nokkurs konar stoðhlutverki fyrir klasa sprotafyrirtækja í sjávarútvegi sem róa í sömu átt að því meginmarkmiði Matís að auka verðmæti sjávarafurða.
„Við komum þarna inn með þekkingu sem fyrirtækin eru kannski ekki með. Við erum líka með rannsóknar- og þróunaraðstöðu sem fyrirtækin hafa oft ekki og mjög góða aðstöðu til þess að skala upp ferla sem fyrirtæki eru að þróa,“ segir Hörður og heldur áfram:
„Oft förum við í sameiginleg verkefni með fyrirtækjunum. Þar sækjum við um styrki saman og hugmyndirnar geta annaðhvort komið frá fyrirtækjunum sem vantar t.d. einhverja sérþekkingu eða aðstöðu, eða þá að við erum með ákveðna hugmynd sem við berum undir fyrirtæki og förum þá í verkefni saman,“ segir Hörður.
Kerecis er eitt þeirra fyrirtækja sem Matís studdi við á sínum tíma en fyrirtækið hefur þróað plástra úr roði til þess að lækna fólk með krónísk sár og hafði aðstöðu hjá Matís á sínum tíma, en fyrirtækið var í upphafi árs 2019 metið á 9,5 milljarða króna.
„Þar erum við með mjög heftandi evrópska reglugerð sem má túlka á mismunandi hátt en er túlkuð hér á Íslandi þannig að þú getur t.d. ekki notað innyfli til þess að framleiða prótein eða lýsi til manneldis. Blóð úr fiski er annað dæmi um eitthvað sem við erum ekki að nýta nú til dags. Við eigum eftir að gera ýmislegt til þess að ná þessari 100% nýtingu,“ segir Hörður.
„Við erum einnig að tala um þarmana og magann. Ef það hráefni er unnið á ákveðinn hátt er hægt að gera þetta að alvöruvöru til manneldis,“ segir Hörður en nefnir þó að ýmsar hliðarafurðir hafi sprottið upp úr þeim hráefnum á síðustu árum.
„Það eru alls konar spennandi afurðir úr innyflum fisks. Þorskaensím eru til dæmis notuð í lækningavörur,“ segir Hörður og nefnir fyrirtækið Zymetech sem dæmi en það framleiðir vöruna PreCold, munnúða sem úðað er á slímhúð í koki og kemur í veg fyrir útbreiðslu kvefveira.
Hörður segir að vissulega hafi góður árangur náðst á undanförnum árum með rannsóknum og þróun á ýmsum hliðarafurðum þótt því verkefni sé ekki lokið. En hann veltir því fyrir sér hvort ekki þurfi að skoða slíkar rannsóknir fyrir önnur viðfangsefni. Til að mynda eldisfisk.
„Fiskeldið er spennandi á margan hátt. Bæði hvað varðar það að auka fiskframleiðslu með eldi og svo koma einnig upp sömu áskoranirnar og við höfum verið að glíma við með bolfiskinn. Allar aukaafurðirnar. Getum við hugsanlega gert það sama við laxinn og við höfum gert við þorskinn? Svo eru náttúrlega gríðarleg tækifæri til að þróa uppsjávarfiskinn frekar og nota meira af honum úr fóðri yfir í mannamat. Hvort sem það eru prótein eða omega-3 fitusýrur.“
„Plastmengunin er eitt af því sem þarf að rannsaka. Við vitum voðalega lítið hvað það er mikil plastmengun og hvort hún hafi áhrif á heilsu okkar sem borðum sjávarfang. Þetta er eitthvað sem við vitum ekki nógu mikið um og mikilvægt er að rannsaka,“ segir Hörður.
„En þetta er risaverkefni og við í Matís erum byrjuð að skoða þetta. Það þarf að fjárfesta í sérstökum tækjabúnaði til þess að rannsaka þetta vel,“ segir Hörður og nefnir að Ísland gegni núna formennsku í norrænu ráðherranefndinni þar sem nýverið var kallað eftir alþjóðlegum plastsamningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið.
„Það er eitt að rannsaka hvað það er mikið plast í hafinu og í fisknum en svo er annað að rannsaka hvað gerist þegar fólk borðar fiskinn. Við höfum ekki hugmynd um það. En svona mengun er náttúrlega alveg skelfileg,“ segir Hörður.
Viðtalið birtist fyrst í sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu laugardaginn 1. júní.