Mun strangari reglur og öflugt eftirlit varð til þess að undanfarinn áratug fór bláuggatúnfiskur í Atlantshafi að ná sér aftur á strik.
Fiskveiðiþjóðir stóðu frammi fyrir flóknu vandamáli þegar fór að bera á ofveiði á bláuggatúnfiski. Það sem gerði erfitt að koma á sjálfbærum veiðum er að bláuggatúnfiskurinn breiðir úr sér um hálfan hnöttinn. Bara sá hluti stofnsins sem heldur sig í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi er nú nýttur af um 28 þjóðum, og gætu verið enn fleiri.
„Bláuggatúnfiskur er líka mikils virði og með hæsta kílóverð af öllum fisktegundum. Eru t.d. fræg dæmin af því þegar haldin eru túnfiskuppboð á markaðinum í Tókýó í byrjun hvers árs og túnfiskar slegnir fyrir metverð – nú síðast á þessu ári seldist einn fiskur fyrir jafnvirði 3,1 milljónar bandaríkjadala,“ segir Trond Bjørndal, prófessor og hagfræðingur hjá SNF; rannsóknastofnun Norska hagfræði- og viðskiptaháskólans í Bergen.
Bjørndal var fyrirlesari á ráðstefnu sem RNH og félagsvísindasvið HÍ efndu til í júní til heiðurs Ragnari Árnasyni, prófessor í fiskihagfræði.
Hann segir hrygningarsvæði þess bláuggatúnfisks sem lifir í Atlantshafi vera í Miðjarðarhafinu og Karíbahafinu en þaðan ferðist fiskurinn vítt og breitt um Atlantshafið, m.a. suður með ströndum Afríku, yfir til Norður- og Suður-Ameríku, og upp eftir Norður-Atlantshafi, suður af Íslandi og allt upp að nyrsta odda Noregs. „Allt í allt hafa um 50 þjóðir stundað veiðar úr Atlantshafs-stofninum í gegnum tíðina og gerir útbreiðsla stofnsins allar samræmdar aðgerðir mjög vandasamar.“
Á sjöunda áratugnum var greinilega komið í óefni og óttuðust margir að túnfiskstofninn væri að hruni kominn. Hvarf túnfiskurinn t.d. úr Norður-Atlantshafi og sýndi sig ekki aftur í nærri hálfa öld. Gripið var til þess ráðs að setja nýja stofnun á laggirnar árið 1966; Alþjóðaráð um verndun túnfiskstofna í Atlantshafi (e. Internatoinal Commission for the Conservation of Atlantic Tunas, ICCAT) og á þeim vettvangi hófust samræmdar aðgerðir til að takmarka veiðar og koma á kvótakerfi.
Þó stigin hafi verið skref í rétta átt varð fljótlega ljóst að starf ICCAT var ekki að skila tilætluðum árangri. Bjørndal segir að bæði hafi kvótakerfið ekki verið mjög skilvirkt og veitt of mikið svigrúm til að veiða langt umfram kvóta, og eins hafi ólöglegar veiðar haldið áfram að vera vandamál.
Var því gengið enn lengra árið 2007 með mun strangari reglum, miklum niðurskurði á kvóta, algjöru banni við veiðum á ungum túnfiski, og öflugu eftirliti. „Eru eftirlitsmenn að störfum um borð í sumum skipum og myndavélaeftirlitskerfi í öðrum til að gæta þess að reglunum sé fylgt,“ útskýrir Björndal.
Nú virðist bláuggatúnfiskurinn vera að ná sér aftur á strik og mælingar benda til að Austur-Atlantshafsstofninn fari stækkandi.
„Þó bláuggatúnfiskur sé stór skepna þá vex hann tiltölulega hratt og er um fimm ár að ná fullri stærð,“ segir Bjørndal og bætir við að sveiflur í hafstraumum í Norður-Atlantshafi kunni að hafa sitt að segja um að bláuggatúnfiskur tók að veiðast aftur í íslenskri og norskri lögsögu. „Haldi þróunin áfram í þessa veru gæti Norður-Atlantshafið orðið mikilvægasta veiðisvæði bláuggatúnfisks, líkt og var raunin á 6. áratugnum.“
Bjørndal telur enn nokkuð langt í að túnfiskstofninn nái hagkvæmustu stærð á ný, en eftir því sem stofninn stækkar ætti túnfiskur að veiðast oftar umhverfis Ísland. Blasir þá við að spyrja, hvort íslenskar útgerðir ættu að fara að setja sig í stellingar fyrir skipulagðar veiðar á túnfiski, í samráði við ICCAT.
„Túnfiskurinn syndir um hafið í torfum og hægt að ná miklum afla um borð ef tekst að ná torfunni. En þó svo að kílóverðið geti verið hátt er ekki sjálfgefið að veiðarnar verði mjög arðbærar. Veit ég til þess að sjómenn á norðurslóðum hafi orðið fyrir vonbrigðum með verð sem þeir hafa fengið fyrir aflann.“