Fjóra hvali rak á land í fjöru við Ólafsvík í kvöld. Stærðarinnar grindhvalavaða, sem telur líklega um hundrað hvali, er á sveimi um 100-200 metra frá ströndinni. Þrír hvalanna sem rak á land náðu að komast af sjálfsdáðum aftur á haf út en einn virðist vera að drepast í flæðarmálinu.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, var í fjörunni í kvöld. „Það er voða lítið hægt að gera held ég, það er töluverður vindur. Hvalurinn veltist bara undan bárunni og nær ekki að koma sér út. Það sem er kannski mesta ógnin er að vaðan virðist alltaf færast nær landi,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is.
Hópur fólks hefur reynt að bjarga hvalnum um tíma, en ekki haft erindi sem erfiði. Fréttaritari mbl.is á Vesturlandi telur að um erlenda ferðamenn sé að ræða.
Grindhvalavöður hafa leitað nærri ströndum Íslands á Suðvestur- og Vesturlandi í auknum mæli upp á síðkastið en á milli 50 og 60 hvalir strönduðu í fjörunni við Útskálakirkju í Garði í byrjun mánaðarins.
Grindhvalavöður hafa sést í grennd við Ólafsvík í sumar. „Fyrir þremur vikum var ein úti í Rifi, um 150 talsins, og þá komu menn á sæþotum og ráku þá út,“ segir Kristinn.
Viðbragðsaðilar hafa ekki verið kallaðir út vegna vöðunnar, enn sem komið er.
Fjóra hvali rak á land en þrír þeirra náðu að komast á haf út af sjálfsdáðum.
mbl.is/Alfons
Stærðarinnar grindhvalavaða er á sveimi við ströndina í Ólafsvík og færist sífellt nær landi að sögn sjónarvotta.
mbl.is/Alfons