Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort og þá hvaða aðgerðum Evrópusambandið beitir gegn Íslendingum vegna makrílveiða á þessu ári. Málið var rætt á fundi fiskveiðinefndar Evrópuþingsins í vikunni, en áður höfðu fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins kynnt málstað Íslands.
Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um makrílveiðar á næsta ári er væntanleg 1. október. Í kjölfarið funda strandríkin; Evrópusambandið, Noregur, Færeyjar, Ísland og Grænland auk Rússlands um stjórnun veiðanna á næsta ári. Ísland hefur ekki verið aðili að samkomulagi þriggja fyrst nefndu aðilanna og hefur ákvörðun Íslendinga um kvóta þessa árs valdið deilum undanfarið.
Aðgerðir þýða ekki endilega refsiaðgerðir
Fabrizio Donatella, sérstakur ráðgjafi fiskveiðimála framkvæmdastjórnar Evrópusambandisns, sagði á fundi í fiskveiðinefnd Evrópuþingsins á miðvikudag að verið væri að skoða öll þau úrræði sem Evrópusambandið gæti gripið til gagnvart Íslandi, hvort sem það væri á grundvelli fiskveiðilöggjafar Evrópusambandsins eða á grundvelli annarra laga. Donatella sagði að einni þeirra leiða sem væru til skoðunar hefði verið beitt gegn Færeyingum 2013 vegna síldveiða og var færeyskum skipum bannað að landa síld í ríkjum Evrópusambandsins í eitt ár.
Donatella sagði meðal annars á fundinum á miðvikudag: „Vegna flækjustigs stöðunnar og vegna þess að við erum að vinna innan ramma sem tengist EES-samningnum og fríverslunarsamningi okkar við Ísland, erum við að skoða allar mögulegar aðgerðir og aðgerðir þýða ekki endilega refsiaðgerðir. Þetta þýðir líka að við viljum koma því á framfæri að þetta er algjörlega óásættanleg hegðun samstarfsaðila.“