Auknar kröfur um þekkingu starfsmanna

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax, kveðst vilja sjá framleiðsluaukningu hjá félaginu …
Björn Hembre, forstjóri Arnarlax, kveðst vilja sjá framleiðsluaukningu hjá félaginu og telur kröfu um menntun starfsfólks aukast með stækkun greinarinnar. mbl.is/Hari

Þetta er menntun sem gefur viðurkennd starfsréttindi innan menntunartilboðs sem þegar er fyrir hendi. Markmiðið er að fjölga starfsmönnum með fagþekkingu hjá Arnarlaxi og í greininni almennt,“ segir Björn Hembre, forstjóri Arnarlax, um nýtt starfsnám tengt fiskeldi sem fyrirtækið vinnur að í samstarfi við Fisktækniskóla Íslands.

Samningur um fræðslu starfsfólks í fiskeldi var undirritaður 6. september og hefur að markmiði að auka sérþekkingu starfsfólks á rekstri og öryggismálum á sínu starfssviði. Námið stendur sem sjálfstætt námsframboð en gengur jafnframt að fullu til eininga og samsvarar þá einnar annar námi á námsbraut Fisktækniskólans í fisktækni með sérstaka áherslu á fiskeldi.

Björn segir mikil verðmæti vera fólgin í því að búa yfir sérmenntuðum starfskrafti. „Fiskeldi er þekkingariðnaður og við sjáum skýra þörf á að því að auka þekkingu starfsmanna. Hingað til hefur ekki verið í boði menntun á þessu sviði á Íslandi, þannig að það eru í raun mjög fáir sem hafa einhverja sérhæfða menntun. Öll reynsla segir okkur að aukin menntun hafi jákvæð áhrif á starfsemina, svo einfalt er það. Þannig að okkur hefur fundist gott að geta boðið starfsfólki okkar og annarra fyrirtækja tækifæri til sérhæfingar.“

„Þetta verður líka vonandi til þess að ungmenni sem standa frammi fyrir því að velja framtíðarstarf hafi þann valkost að sérhæfa sig þegar þau koma af unglingastigi grunnskólans,“ bætir hann við.

Kröfur stöðugt að aukast

Spurður hvort kröfur um þekkingu séu að aukast segir Björn svo vera og að með nýrri tækni sé eðlilegt að slíkar kröfur séu gerðar. „Krafan um þekkingu starfsmanna eykst stöðugt. Öll starfsemi sem þarf að taka mið af heilbrigði, umhverfi og öryggi þarfnast stöðugra umbóta – það verður hluti af þeirri kröfu og svo er það þessi líffræðilega hlið framleiðslunnar. Góð umgjörð líffræðinnar er kjarni framleiðslunnar í laxeldi.“

Forstjórinn segir stóran hluta starfsmannahóps Arnarlax þegar búa yfir mikilli reynslu af sjómennsku. „Við stöndum sterk í öllu sem varðar báta og verklega þætti sem því tengjast. En það er á sviði líffræði sem mætti efla þekkingu starfsmanna.“

Hann segir um skýra langtímafjárfestingu að ræða. „Það getur vel verið að það verði einhverjir ávinningar til skamms tíma líka. Við vonum að þetta hafi hvetjandi áhrif á þá sem velja að taka þátt og fengin reynsla sýnir að aukin þekking gefur af sér aukna starfsgleði, sem síðan getur stuðlað að því að starfsfólk haldist lengur í vinnu hjá fyrirtækinu og í greininni.“

Ísland ekki á eftir

Sérhæft fisktækninám sem tengist fiskeldi hefur verið starfrækt í Noregi frá miðjum níunda áratug, að sögn Björns. „Ég fór í þetta framhaldsnám nám eftir að ég lauk unglingastigi árið 1988 og þá hafði þetta verið í boði í nokkur ár,“ útskýrir hann.

Hann segir það að slíkt nám hafi ekki verið í boði hér á landi áður ekki merki um að Ísland hafi endilega verið á eftir. „Það verður að horfa til þess að starfsgreinin hefur ekki verið mjög stór á Íslandi og ég tel að nú sé réttur tími til þess að koma þessu á, við erum að sjá vöxt í sjókvíaeldi. Líka í eldi á landi, sem að öllum líkindum einnig mun þurfa sérhæft starfsfólk.“

„Það hafa verið sveiflur í fiskeldi í sjókvíum og þegar niðursveifla hefur orðið hafa menn líklega ekki hugsað mikið um menntunarþáttinn. En nú er verið að byggja þessa starfsemi upp og koma á sjálfbærri atvinnugrein til lengri tíma, þá er mikilvægt að leggja sitt af mörkum í menntunarmálum.“

Björt framtíð fiskeldis

Verð á laxi hefur fallið nokkuð undanfarnar vikur og mánuði. Spurður hvaða áhrif hann telji verðþróunina hafa á greinina svarar Björn: „Atvinnugreinin er í uppbyggingu og við höfum ekki slátrað mörgum kynslóðum og í startholunum er mikill kostnaður. Flest fiskeldisfyrirtæki eru byrjuð að sýna jákvæða rekstrarniðurstöðu, en lágt verð dregur úr afkomu. Hins vegar vitum við ekki hversu lengi verðlagið verður svona.“ Hann segir jafnframt eðlilegt að verð lækki á tímum þegar framboð eykst mikið, en að á móti komi að eftirspurn eftir laxi fari vaxandi. „Þess vegna er mjög mikilvægt að við byggjum upp samkeppnishæfa atvinnugrein.“

„Það er engin rosaleg framlegð sem við byggjum reksturinn á og það var á fyrri árshelmingi 2019 sem við gátum sýnt jákvæða rekstrarniðurstöðu, þannig að við vonum að verð fari hækkandi á ný. En það er engin dramatík í þessu,“ segir hann og bætir við að staðan hafi engin áhrif á áætlanir félagsins. „Þetta eru svona hlutir sem gerast af og til og við þurfum bara að læra að lifa með því, auk þess sem við vinnum að því að lækka kostnað til þess að við getum lifað með því.“

Hann kveðst sannfærður um að framtíð eldis sé björt. „Ég geri ráð fyrir að framleiðslan muni aukast þegar fram líða stundir. Seiðaframleiðslan hefur haft takmarkandi áhrif en hún er að taka við sér og við verðum fljótt tilbúin að framleiða meiri lax. Við viljum sjá framleiðsluaukningu og það verður eðlileg aukning á næstu árum í samræmi við þau leyfi og leyfisumsóknir sem Arnarlax hefur.“

Fyrirtækjamenning mikilvæg

„Það er smá menningarmunur hvað varðar atvinnuvenjur. Íslendingar eru ekki svo nákvæmir hvað tímasetningar varðar og það er kannski það sem veldur mesta pirringnum, en við erum nú alveg að verða komin í land með það hjá Arnarlaxi,“ svarar Björn og hlær er hann er spurður hvort hann hafi upplifað menningarmun milli atvinnureksturs á Íslandi og í Noregi. „En hvað varðar vinnusiðferði er þetta voðalega svipað milli landanna. Það er líka mikilvægt í rekstri að byggja upp fyrirtækjamenningu innan félagsins og við vinnum stöðugt að því. Við gerum það með þeim hætti að allir koma að þeirri vinnu þannig að við náum að fá það besta úr öllum og vonandi verður vinnudagur allra betri líka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 211,11 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 108 kg
Ýsa 35 kg
Steinbítur 26 kg
Sandkoli 14 kg
Samtals 183 kg
22.12.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 773 kg
Þorskur 257 kg
Ýsa 26 kg
Steinbítur 10 kg
Þykkvalúra 8 kg
Karfi 7 kg
Sandkoli 6 kg
Hlýri 5 kg
Samtals 1.092 kg
22.12.24 Stakkhamar SH 220 Lína
Þorskur 7.817 kg
Samtals 7.817 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 211,11 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 108 kg
Ýsa 35 kg
Steinbítur 26 kg
Sandkoli 14 kg
Samtals 183 kg
22.12.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 773 kg
Þorskur 257 kg
Ýsa 26 kg
Steinbítur 10 kg
Þykkvalúra 8 kg
Karfi 7 kg
Sandkoli 6 kg
Hlýri 5 kg
Samtals 1.092 kg
22.12.24 Stakkhamar SH 220 Lína
Þorskur 7.817 kg
Samtals 7.817 kg

Skoða allar landanir »