Rúmlega 1.100 þorskígildistonn hverfa frá Grímsey með sölunni á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Sigurbirni ehf. til Ramma hf., sem er með höfuðstöðvar sínar á Siglufirði. Fram kom í tilkynningu Ramma um kaupin að fyrirtækið ætli ekki að verka fisk í eynni.
Níu ársverk hafa verið unnin hjá útgerðarfyrirtækinu til lands og sjávar, en um er að ræða fyrirtæki sem stofnað var árið 1978 og hefur verið í eigu tveggja fjölskyldna í eyjunni. Gylfi Gunnarsson útgerðarmaður í Sigurbirni hafði ekki tök á að ræða þær ástæður sem liggja að baki sölunni til Ramma við blaðamann er eftir því var leitað. Hann var úti á sjó við vinnu.
Með sölunni fer nær helmingur þeirra aflaheimilda, sem útgerðarfyrirtæki í Grímsey ráða yfir, frá eyjunni.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar segir tíðindin alvarlegar fréttir fyrir byggðina í Grímsey og mikið áhyggjuefni. „Þetta eru vondar fréttir,“ segir Ásthildur við blaðamann, en Grímsey er hluti Akureyrarbæjar og hefur byggðin þar verið í varnarbaráttunni undanfarin ár. Í upphafi þessa árs voru íbúar í Grímsey 61 talsins, en enn færri hafa vetursetu í eynni.
Útgerðarfyrirtækin sem þar starfa hafa staðið höllum fæti og árið 2017 fækkaði þeim er eigendur útgerðarfyrirtækisins Borgarhöfða, sem þá var það stærsta í eynni, seldu allan kvóta sinn til Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði eftir að ljóst var að ekki næðist samkomulag við viðskiptabanka fyrirtækisins um niðurfellingar á gengistryggðum lánum.
Áður hafði verið fjallað um það í fjölmiðlum að staða Borgarhöfða, Sigurbjarnar og Sæbjargar ehf., sem einnig gerir út frá Grímsey, væri erfið og greindi Fréttablaðið frá því árið 2015 samanlögð skuld félaganna við Íslandsbanka næmi þremur milljörðum króna.
Gunnar Hannesson útgerðarmaður hjá Sæbjörgu segir í samtali við mbl.is að staðan hjá hans fyrirtæki sé ágæt og að hann sé ekki að fara að hætta útgerð, allavega ekki strax. Hann segist aðspurður telja að sala Sigurbjarnar sé slæm fyrir eyjuna.
Sæbjörg á kvóta sem nemur 502 þorskígildistonnum og annað fyrirtæki sem gerir út frá Grímsey, Hafborg ehf., á kvóta sem nemur 724 þorskígildistonnum. Eftir því sem blaðamaður kemst næst er þetta allur kvótinn sem eftir er í Grímsey, nú þegar Rammi hefur keypt Sigurbjörn og þær aflaheimildir sem fyrirtækið á.
Sjávarútvegur hefur verið grundvöllur búsetu og aðalatvinnuvegur Grímseyinga alla tíð og á íbúaþingi í tengslum við byggðaþróunarverkefnið „Glæðum Grímsey“ í maí árið 2016 lögðu íbúar mikla áherslu á að styrkja þyrfti þar fiskveiðar og útgerð.
Síðan þá hefur útgerðarfyrirtækjunum fækkað og íbúum einnig og nú er svo komið að ekkert skólahald er í eyjunni. „Það hefur náttúrlega fækkað í eyjunni. Þetta er fyrsti veturinn þar sem ekki er kennt í Grímseyjarskóla, það eru hreinlega bara ekki börn til þess að sækja skólann, þau eru í landi og það er val foreldranna að vera með börnin í landi,“ segir Ásthildur í samtali við mbl.is um þróun byggðarinnar í Grímsey.
Bæjarstjórinn bætir við að til standi að hún og forseti bæjarstjórnar og þeir bæjarfulltrúar á Akureyri sem séu í verkefnastjórn Brothættra byggða hitti íbúa Grímseyjar og fari yfir stöðuna á næstunni.