Kristján Berg Ásgeirsson, betur þekktur sem fiskikóngurinn, segir erfiðlega ganga að fá hráefni á fiskimörkuðunum og þar af leiðandi veita viðskiptavinum fisk á verði sem þeir eru reiðubúnir til þess að greiða. „Verð hefur hækkað alveg gríðarlega,“ segir Kristján og telur að vandinn stafi af því að útgerðir sem einnig reka vinnslu þurfa ekki að selja fiskinn sem þær veiða á fiskmarkaði.
„Þetta er að taka sinn toll hjá okkur og síðan eru fjögur stærstu [fiskvinnslu]fyrirtækin á landinu, Frostfiskur, Ísfiskur, Toppfiskur og Nýfiskur. Þessi fyrirtæki voru stærstu kaupendur á markaðnum en eru öll í erfiðleikum. Á meðan blómstra kvótafyrirtækin, kaupa alla upp og hreinsa markaðinn,“ fullyrðir fiskikóngurinn.
Spurður hvort aukin kaup erlendra aðila á fiskmörkuðum hérlendis með fiskvinnslu í Evrópu skýri ekki hærra verð á markaði, viðurkennir hann að það hafi áhrif.
„En ef það væri meira hráefni á markaði þá væri ekki svona hátt verð. Á meðan kvótaútgerðirnar eru að sameinast og kaupa upp hver aðra þá fer fiskurinn ekki á markaðinn, þau vinna þetta bara sjálf. Þá minnkar hráefnið á markaðnum og hækkar verðið,“ svarar Kristján og segir að skynsamlegra væri ef allir fengju að bjóða í þann fisk sem veiddur er.
„Við sitjum eftir og getum ekki sinnt okkar viðskiptavinum nema að hækka verð. Það eru einhvers staðar sársaukamörk,“ bætir Kristján við og bendir á að hann þjónustar bæði veitingastaði og mötuneyti.
Hann segir þegar vera erfitt að standa í viðskiptum við veitingastaðina. „Ég er með milljónir í töpuðum kröfum vegna þess að veitingastaðirnir geta ekki borgað og geta þá ekki heldur keypt fiskinn fyrir hærra verð. Þannig að það er ófremdarástand í landinu.“