Svokölluð ISA-veira hefur greinst á laxeldisstöð Bremnes Seashore AS á Jørstadskjera á Finnøy í Rogalandi í Noregi, að því er fram kemur á vef norsku matvælastofnunarinnar, Mattilsynet. Um er að ræða sjúkdóm sem mikil smithætta er af og veldur blóðskorti, en bæði lax og regnbogasilungur geta smitast.
Fram kemur í tilkynningu Mattilsynet á vef stofnunarinnar að veiran hafi greinst 15. nóvember og að eldisstöðinni hafi verið gert óheimilt að færa fisk án þess að hljóta sérstaka heimild. Jafnframt kunni að koma til þess að Bremnes Seashore AS verði gert að tæma allar kvíar og farga öllum fiski eins og reglugerðir gera ráð fyrir. Komi til þess þarf að þrífa og sótthreinsa auk þess sem kvíarnar verða teknar úr rekstri í þrjá mánuði.
Finnøy í Noregi.
Kort/Google
Mikil smithætta
Sjúkdómurinn getur lifað í sjó og er því mikilvægt að bregðast snöggt við þar sem hætta er á að smit berist til annarra eldisstöðva, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þótt veiran hafi ekki áhrif á menn geta þeir borið hana og því einnig mikilvægt að öll starfsemin taki mið af því að koma í veg fyrir frekari smit.
Smit hafa í gegnum árin greinst á fiskeldisstöðvum fyrir atlantshafslax í Noregi, Skotlandi, Síle og Kanada.
Greinist slík ISA-veira á eldisstöð getur það haft veruleg áhrif á rekstur eldisstöðva, en grunur um smit dugar til þess að ekki sé heimilt að flytja afurð frá viðkomandi stöð til Kína, Ástralíu eða Nýja-Sjálands. Hvað Ástralíu varðar er einnig óheimilt að flytja þangað lax eða skylda fiska frá fiskeldisstöð sem er innan við 10 kílómetra frá þeirri stöð sem smit hefur greinst í.