Togarinn Heinaste er enn við bryggju í Walvis Bay í Namíbíu. Á föstudag var greint frá því að togarinn, sem er í hlutaeigu Samherja í gegnum dótturfélagið Esja Holding, hefði verið kyrrsettur með dómsúrskurði. Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir að ef til vill sé of sterkt til orða tekið að tala um kyrrsetningu.
„Kyrrsettur er nú kannski ofmælt, hefði ég haldið, en þeir vildu komast yfir ákveðin siglingaskjöl og það er það sem þeir eru að skoða, eftir því sem ég best veit, en málið er í farvegi hjá lögmönnum þar niður frá. Þeir fóru um borð og skoðuðu einhver siglingaskjöl og eru örugglega að rannsaka þau. Ég veit ekki meira og veit ekki til þess að hann sé kyrrsettur að öðru leyti,“ segir Björgólfur í samtali við mbl.is.
Ekki þægileg staða að vera í
Arngrímur Brynjólfsson skipstjóri togarans var handtekinn í síðustu viku vegna meintra ólöglegra veiða á grynningum og sætir farbanni þar til mál hans verður tekið fyrir. Björgólfur segist hafa heyrt í honum í gær og segir að hann hafi það gott eftir atvikum, eins og sagt sé á læknamáli.
„En þetta er auðvitað ekki þægileg staða að vera í, það gefur augaleið. Það er verið að vinna í því máli sem og Heinaste-málinu í dag og ég veit ekki hvort það kemur eitthvað út úr því í dag eða á morgun, það verður bara að koma í ljós.“
Arngrímur sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla eftir að honum var sleppt úr haldi í síðustu viku þar sem fram kom að á 49 ára ferli hans til sjós hefði hann aldrei verið sakaður um að brjóta af sér á neinn hátt og að það væru „mikil vonbrigði“ fyrir hann að vera sakaður um þessi brot, þar sem veiðiferðin átti að verða hans síðasta á ferlinum.
Togarinn Heinaste er enn við bryggju í Walvis Bay í Namibíu.