Aflaverðmæti fyrstu sölu nam 12,4 milljörðum króna í septembermánuði. Er það 13,6% meira en í september í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar. Þar kemur einnig fram að verðmæti botnfiskafla hafi numið 8,2 milljörðum króna en verðmæti uppsjávarafla hafi numið 3,6%. Verðmæti botnfiskaflans jókst um 26,5% milli ára en samdrátturinn í uppsjávaraflanum var 5,8% miðað við septembermánuð í fyrra.
Samdráttinn í uppsjávarafla má rekja til þess að mun minna veiddist nú í september af makríl en fyrir ári. Dróst aflaverðmætið saman um 62,5% og nam tæpum 1,2 milljörðum króna samanborið við tæpan 3,1 milljarð í fyrra. Þá dróst veiði á kolmunna einnig saman en hún var óveruleg, bæði í september í fyrra (34,2 milljónir) og nú (25,8 milljónir).
Botnfiskurinn dregur vagninn
Aukning varð í verðmæti allra tegunda botnfisks. Í þorski jókst verðmætið um 26,5% og nam 8,2 milljörðum króna. Aukningin var 36,7% í ýsu og aflaverðmætið reyndist rúmur milljarður. Í ufsa var aukningin 35,4% og nam verðmætið af fyrstu sölu 708 milljónum. Þá jókst aflaverðmæti í karfaveiðum um 32,9% og stóð það í 1,1 milljarði. Aukning í öðrum tegundum botnfisks var 4,9%.
Sé horft til síðustu 12 mánaða (október—september) sést að aflaverðmæti nemur 144,2 milljörðum króna. Hefur það aukist um 15,4% miðað við sama tímabil næstu tólf mánuði á undan. Þá nam verðmætið 124,9 milljörðum króna. Líkt og þegar litið er til septembermánaðar er aukningin í botnfiski talsverð eða 24,5% en í uppsjávarfiski nemur samdrátturinn í aflaverðmæti 5,7%.