Rúmum sex árum eftir að stærðarmörkum báta í krókaaflamarkskerfinu var breytt samþykkti Alþingi að lög um áhafnir skipa skyldu samræmast breytingunni.
Árið 2013 samþykkti Alþingi frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Með frumvarpinu var meðal annars lagt til að stærðarmörk báta í krókaaflamarkskerfinu yrðu stækkuð úr tólf metrum og 20 brúttótonnum í fimmtán metra og 30 brúttótonn. Áður hafði Steingrímur J. Sigfússon, núverandi forseti Alþingis, lagt frumvarpið fram þegar hann gegndi embætti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Frumvarpinu var mótmælt af mörgum hagsmunaaðilum, en var samþykkt sem ný lög á Alþingi 25. júní 2013 og tóku þau þegar gildi. En við það varð leyfilegt að veiða innan krókaaflamarkskerfisins á fimmtán metra bátum án þess að gerðar yrðu viðhlítandi breytingar á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa sem enn miðuðu við tólf metra. Þar af leiðandi voru gerðar auknar mönnunar- og menntunarkröfur um borð í bátunum sem veiða í kerfinu og eru á bilinu tólf til fimmtán metrar.
Sniðið að kerfinu
Sex árum og fimm mánuðum síðar á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir áramót, 17. desember síðastliðinn, samþykkti Alþingi nýtt frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, nú samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, um samræmingu laga og tilheyrandi reglugerða.
„Það er með þessu verið að sníða þetta að kerfinu okkar. Þessir bátar sem smíðaðir eru í dag eru langflestir 15 metrar og með þessu er verið að uppfæra réttindin í samræmi við stærðarmörk bátanna,“ segir Þorlákur Halldórsson, formaður Landssambands smábátaeigenda. Bendir formaðurinn á að það séu þegar margir bátar af þessari stærð að veiða innan krókaaflamarkskerfisins og að það sé óþarfi að hafa aukna mönnunarkröfu á umræddum bátum, að mati formannsins.
Fjallað var um málið í 200mílum, sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútvegsmál, í dag.