Saga Magna spannar níu áratugi

Magni annar og Magni fimmti. Myndin var tekin þegar Magni …
Magni annar og Magni fimmti. Myndin var tekin þegar Magni V. færði nafna sinn að Slippnum, þar sem báturinn var hreinsaður og málaður. Ný vél verður sett í bátinn mbl.is/Hari

Fyrsti dráttarbátur Reykjavíkurhafnar kom til landsins 1928 og fékk nafnið Magni. Síðan þá hefur það verið hefð hjá höfninni að skíra öflugasta dráttarbátinn því nafni. Eftir áramótin er nýr Magni væntanlegur í flotann. Báturinn var smíðaður í Víetnam og er langöflugasti dráttarbátur sem Reykjavíkurhöfn/Faxaflóahafnir hafa eignast. Stærri skip hafa kallað á að öflugri dráttarbátar verði til taks.

Nýr Magni lagði af stað frá Víetnam til Íslands hinn 19. október sl. og var væntanlegur til Rotterdam fyrir helgina.

Magni mun svo leggja í hann til Íslands strax eftir áramótin og yrði þá í Reykjavík fyrir miðjan janúar. Báturinn hefur þá lagt að baki rúmlega 10.000 sjómílna siglingu.

Eins og fram hefur komið í fréttum er hinn nýi Magni smíðaður í Hi Phong í Víetnam. Skipasmíðastöðin Damen Shipyards í Hollandi smíðar bátinn, en hún rekur skipasmíðastöð í Víetnam ásamt fjölda annarra stöðva víðs vegar um heiminn. Smíði bátsins var boðin út í fyrra og voru tilboð opnuð í nóvember sama ár. Alls bárust 15 tilboð frá átta skipasmíðastöðvum og var tilboði Damen Shipyards, að upphæð jafnvirði 1.040 milljóna, tekið.

Magni fyrsti var keyptur í Þýskalandi og kom til landsins …
Magni fyrsti var keyptur í Þýskalandi og kom til landsins 1928. Hann var í þjónustu hafnarinnar til 1955.

Hinn nýi dráttarbátur er 32 metra langur og 12 metra breiður. Hann er með tvær 2.025 kW aðalvélar (samanlagt 6.772 hestöfl). Togkraftur verður 85 tonn fram og 84 aftur. Er það helmingi meiri togkraftur en núverandi Magni hefur og sá sami og samanlagður kraftur allra fjögurra núverandi báta Faxaflóahafna. Ákveðið hefur verið að núverandi Magni fái nafnið Haki.

Við þessi tímamót er fróðlegt að rifja upp sögu dráttarbáta í Reykjavík, en sú saga spannar 91 ár. Myndirnar með greininni eru í eigu Faxaflóahafna, nema annað sé tekið fram.

Í hinu gagnmerka riti Guðjóns Friðrikssonar um 100 ára sögu Reykjavíkurhafnar, Hér heilsast skipin, kemur fram að mönnum varð ljóst á fyrstu árunum eftir að höfnin var fullgerð (1917), að brýn nauðsyn var að kaupa kraftmikinn dráttarbát. Aflað var tilboða í nýsmíði en kostnaðurinn var talinn of mikill.

Magni þriðji var keyptur til landsins 1987.
Magni þriðji var keyptur til landsins 1987.

Fyrsti Magni keyptur í Hamborg

Niðurstaðan varð að kaupa átta ára gamlan bát í Hamborg í Þýskalandi. Báturinn kom til Reykjavíkur árið 1928 og hlaut nafnið Magni. Hann var knúinn 325 hestafla gufuvél. Magni 1 var í notkun fram á sumarið 1955 en var þá gerður að flotbryggju fyrir hafnsögubátana.

Magni II. kom næstur og hann á sér merka sögu enda fyrsta stálskipið sem Íslendingar smíðuðu. Magni liggur nú ásamt varðskipinu Óðni við safnabryggju Sjóminjasafnsins í Gömlu höfninni í Reykjavík.

Dráttarbáturinn Magni var smíðaður í Stálsmiðjunni í Reykjavík og hannaður af Hjálmari R. Bárðarsyni skipaverkfræðingi (1918-2009) fyrir Reykjavíkurhöfn. Hjálmar var mikill frumkvöðull og hafði lengi haft hug á að smíða fyrsta stálskipið. Hjálmar hannaði bátinn svo að hann hentaði í flestöll verkefni auk aðalverkefnisins, sem var að aðstoða skip og draga.

Magni fjórði var nýsmíði frá Hollandi. Hann kom til landsins …
Magni fjórði var nýsmíði frá Hollandi. Hann kom til landsins 1996.

Magna var hleypt af stokkunum í október 1954 og afhentur Reykjavíkurhöfn 25. júní 1955. Aðalvél og hjálparvél voru af gerðinni Deutz og dráttargetan 12 tonn. Lengst af var hann eini dráttarbáturinn sem höfnin hafði yfir að ráða. Eins var Magni notaður mikið í vatnsflutninga til skemmtiferðaskipa á ytri höfninni. Árið 1986 bræddi aðalvél Magna úr sér og var bátnum lagt. Magni var afhentur Sjóminjasafninu til varðveislu fyrir nokkrum árum. Hollvinasamtök Magna hafa pantað nýja vél í bátinn og stefna af því að gera hann haffæran.

Árið 1987 var ákveðið að kaupa tvo notaða dráttarbáta frá Hollandi. Hlutu þeir nöfnin Haki og Magni. Þeir voru 33 rúmlestir og höfðu 10 tonna togkraft.

Haustið 1995 var gengið til samninga við Damen Shipyards í Hollandi um smíði nýs dráttarbáts. Kom hann til landsins vorið 1996 og fékk nafnið Magni. Var hann sá fjórði með því nafni. Nýi Magni var 76 rúmlestir og hafði 17 tonna togkraft. Fljótlega var ljóst að þörf væri á enn öflugri dráttarbáti, enda fóru skipin stækkandi sem komu til hafnar. Ennfremur var búið að stofna fyrirtækið Faxaflóahafnir sf. og athafnasvæðið var nú allur Faxaflóinn. Meðal annars Grundartangahöfn, en þangað komu risastór súrálsskip.

Magni sjötti var smíðaður í Víetnam og er væntanlegur til …
Magni sjötti var smíðaður í Víetnam og er væntanlegur til landsins í næsta mánuði.

Nýjasti Magni kom 2006

Árið 2005 var því ráðist í að kaupa 141 tonns dráttarbát sem hafði 39,5 tonna togkraft. Var hann keyptur af skipasmíðastöð Damen, smíðaður í Rúmeníu og kom til landsins 2006.

Magni, sá fimmti í röðinni, er enn að störfum. Á heimasíðu Faxaflóahafna segir að þörf fyrir svo öflugan dráttarbát hafi aukist árin á undan með komu mun stærri skipa. Í bátnum eru mjög öflugar brunadælur. Góð aðstaða er fyrir áhöfn.

Og enn stækka skipin og risastór skemmtiferðaskip koma hingað á sumrin. Þá mun Eimskip á næsta ári taka í notkun rúmlega 26 þúsund tonna vöruflutningaskip. Þörfin fyrir enn stærri dráttarbáta eykst því enn.

Greinin var fyrst birt í 200 mílum, sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútvegsmál, 20. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.12.24 666,82 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.12.24 489,78 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.12.24 274,00 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 27.12.24 425,00 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.12.24 Kristján HF 100 Lína
Keila 324 kg
Karfi 172 kg
Þorskur 113 kg
Ýsa 96 kg
Samtals 705 kg
28.12.24 Indriði Kristins BA 751 Lína
Þorskur 173 kg
Ýsa 99 kg
Samtals 272 kg
27.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 58 kg
Steinbítur 34 kg
Sandkoli 9 kg
Samtals 101 kg
27.12.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 1.146 kg
Ýsa 316 kg
Steinbítur 61 kg
Sandkoli 23 kg
Þykkvalúra 20 kg
Karfi 1 kg
Samtals 1.567 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.12.24 666,82 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.12.24 489,78 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.12.24 274,00 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 27.12.24 425,00 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.12.24 Kristján HF 100 Lína
Keila 324 kg
Karfi 172 kg
Þorskur 113 kg
Ýsa 96 kg
Samtals 705 kg
28.12.24 Indriði Kristins BA 751 Lína
Þorskur 173 kg
Ýsa 99 kg
Samtals 272 kg
27.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 58 kg
Steinbítur 34 kg
Sandkoli 9 kg
Samtals 101 kg
27.12.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 1.146 kg
Ýsa 316 kg
Steinbítur 61 kg
Sandkoli 23 kg
Þykkvalúra 20 kg
Karfi 1 kg
Samtals 1.567 kg

Skoða allar landanir »

Loka