Ríki Evrópusambandsins hafa ítrekað þá kröfu sína að Bretar veiti ríkjum ESB áfram rétt til fiskveiða í breskri lögsögu þrátt fyrir að útgöngusamningur Bretlands úr ESB hafi verið samþykktur. Viðræður milli Bretlands og ESB um fríverslunarsamning standa yfir en nú er óttast að þær geti runnið út í sandinn vegna þessa skilyrðis sem ESB gerir um aðgang að breskum fiskimiðum.
Þetta sýna drög að umboði sem Michel Barnier, sem fer fyrir samninganefnd ESB, fékk í hendurnar um helgina frá ríkisstjórnum ESB-ríkjanna. Stórar fiskveiðiþjóðir eins og Frakkland, Belgía, Írland og Holland gera þá kröfu að Barnier verði að ná samningi sem verji núverandi fyrirkomulag sem byggir á gagnkvæmum réttindum ríkja til fiskveiða í lögsögu ESB ríkja.
Telegraph greinir frá þessu sem og að heimildarmenn innan ESB óttist að kröfur frá ESB-ríkjunum muni harðna á næstunni þar sem ríkin óttist að Barnier muni reyna að komast að einhvers konar málamiðlun við Breta. Heimildarmenn segja að ríkin séu ósátt við hversu varfærinn Barnier hafi verið í viðræðum við Breta.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er sömuleiðis undir þrýstingi frá breskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem krefjast þess að fá forgang til veiða í lögsögu Bretlands. Íhaldsflokkurinn hefur lofað breskum sjómönnum „hundruðum þúsunda tonna“ til viðbótar eftir að aðlögunartímabilinu eftir útgöngu Bretlands lýkur í lok árs.
Telegraph greinir frá því að eftir fund embættismanna Bretlands og ESB á föstudag hafi komið í ljós að stórt bil er á milli þeirra sem gæti orðið erfitt að brúa í komandi samningsviðræðum. Óttast er að ágreiningurinn geti orðið til þess að samningsviðræður stöðvist á næstu mánuðum.