Kolefnisgjöld leggjast þungt á sjávarútvegsfyrirtæki

„Það hefur verið reiknað út að kolefnisjöfnun sjávarútvegs með endurheimt …
„Það hefur verið reiknað út að kolefnisjöfnun sjávarútvegs með endurheimt votlendis gæti kostað til jafns við þá upphæð sem greinin greiðir í kolefnisgjald ár hvert. Þetta er umhugsunarvert,“ segir Hildur Hauksdóttir. mbl.is/RAX

Eins og Morgunblaðið hefur áður fjallað um hefur íslenskur sjávarútvegur náð stórmerkilegum árangri við að draga úr olíunotkun við veiðar. Þegar tölurnar eru skoðaðar er ljóst að ef ekki væri fyrir þessa jákvæðu þróun innan greinarinnar væri kolefnisbókhald Íslands í enn verra ástandi og gæti jafnvel verið tilefni til að hampa tiltölulega smáu kolefnisspori íslensks fisks við markaðssetningu erlendis.

Hildur Hauksdóttir er sérfræðingur í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og flutti hún forvitnilegt erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember þar sem hún velti m.a. upp þeirri spurningu hvort raunhæft væri að kolefnisjafna íslenskan sjávarútveg.

„Frá árinu 1990 hefur tekist að minnka olíunotkun skipaflotans um 40% þrátt fyrir að sambærilegt magn af afla komi í land. Ástæðurnar fyrir því eru margar en eitt stærsta skrefið var fiskveiðistjórnunarkerfið sem hefur leitt til jákvæðra breytinga á umhverfisáhrifum greinarinnar,“ segir Hildur og bendir á þætti á borð við batnandi ástand sumra fiskistofna, og markvissari veiðar. „Veiðiferðirnar styttri því útgerðirnar þurftu síður að sækja á fjarlæg mið, og með hagræðingu og samþjöppun sköpuðust möguleikar á að fjárfesta í stærri og afkastameiri skipum,“ segir Hildur.

Nýsmíðaður Breki VE við bryggju í Eyjum.
Nýsmíðaður Breki VE við bryggju í Eyjum. Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson

Sem dæmi um þróunina nefnir hún skipin Breka VE og Pál Pálsson ÍS sem voru hönnuð þannig að risavaxin skrúfa knýr þau áfram og nýtir orku vélarinnar mun betur en skrúfur af hefðbundinni stærð. „Ekki er nóg með að skipin séu sparneytin heldur veiða þau hvort um sig á við tvö eldri skip. Þetta er gott dæmi um á hvaða vegferð sjávarútvegurinn hefur verið síðustu áratugi.“

Að mati Hildar á greinin enn mikið inni á þessu sviði og er hluti skipaflotans kominn til ára sinna. Mörg útgerðarfélög eru að huga að endurnýjun, m.a. til að tryggja samkeppnishæfni í harðri alþjóðlegri samkeppni. „Þar skipti miklu að fyrirtækin í greininni hafi sem gleggsta hugmynd um framtíðina og gott svigrúm til að fjárfesta, enda nýtt skip stór fjárfesting sem gerð er til langs tíma.“

Ekki hægt að panta raffrystitogara sisvona

Áhugverð verkefni eru í farvatninu, sem miða m.a. að því að smíða smábáta sem ganga fyrir rafmagni. Hildur segir þau verkefni allra góðra gjalda verð en útlit sé fyrir að í dag henti tæknin aðeins minni bátum sem fara styttri túra. Er vandséð að stærri skip sem eru lengi á sjó séu tilbúin í orkuskipti og mun það ekki gerast án stuðnings við nýsköpun og þróun. „En þróunin er eftir, og ekkert sem heitir að leggja einfaldlega inn pöntun hjá skipasmiðju um eitt stykki rafvæddan frystitogara – þetta er ekki eins og með rafmagnsbílana sem hægt er að kaupa nú þegar, og einhverjir áratugir í að orkuskipti í sjávarútvegi verði raunhæf.“

Þangað til er lítill vafi á að framfarir munu eiga sér stað, jafnt og þétt, og olíunotkun við fiskveiðar dragast saman ár frá ári. Er vert að huga að því hvort ekki megi bæta um betur með því t.d. að kolefnisjafna sjávarútveginn. „Þar hafa þrjár leiðir helst verið nefndar: landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis, og það hefur verið reiknað út að kolefnisjöfnun sjávarútvegs með endurheimt votlendis gæti kostað til jafns við þá upphæð sem greinin greiðir í kolefnisgjald ár hvert. Þetta er umhugsunarvert, og vekur spurningar um hvernig best sé að nýta gjaldið sem greinin greiðir í dag.“

Nýr Páll Pálsson ÍS var stærsta einstaka fjárfesting í sjávarútvegi …
Nýr Páll Pálsson ÍS var stærsta einstaka fjárfesting í sjávarútvegi á Vestfjörðum um langa hríð. Ljósmynd/Gusti Productions

Hildur segir kolefnisgjöld leggjast þungt á sjávarútvegsfyrirtæki og er áætlað að á þessu ári þurfi greinin að borga um 2 milljarða króna í skatta sem tengjast losun koltvísýrings við bruna jarðefnaeldsneytis.

„Miðað við vísitölu neysluverðs, sem hækkað hefur um 33% síðan árið 2010, hefur þetta gjald verið hækkað um 295% síðan þá og það þrátt fyrir að á sama tíma hafi dregið úr olíunotkun sjávarútvegsins. Þá er markmiðið með gjaldtökunni að hvetja til notkunar umhverfisvænna og innlendra orkugjafa og að fólk og fyrirtæki velji sparneytnari ökutæki, sem eru góð og göfug markmið en gjaldtakan getur haft þveröfug áhrif í sjávarúrvegi,“ útskýrir hún. „Gjöldin rýra afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og draga úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði, og minnka þannig fjárhagslegt svigrúm þeirra til að fjárfesta t.d. í sparneytnari og afkastameiri skipum, eða orkusparandi búnaði.“

Prótein með lítið kolefnisspor

Í þessu ljósi er rétt að hugleiða hvort ekki þurfi að skapa annars konar hvata, eða breyta gjaldakerfinu. „Kolefnisgjöldin ættu ekki að vera eins og hver önnur tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð, heldur ættu tekjurnar af þessum skatti að vera nýttar strax í þágu loftslagsmála, og eðlilegast að gjöldin séu nýtt t.d. í fjárfestingar og nýsköpun sem stuðla að minni útblæstri, eða þá að sú upphæð sem greidd er í útblástursskatt fari í kolefnisjöfnun.“

Þessu tengt þá myndi kolefnisjöfnun sjávarútvegsins skapa ný tækifæri í markaðssetningu íslensks sjávarfangs og tekur Hildur undir þau sjónarmið að lágt kolefnisspor íslensks fisks geti verið eitthvað sem ætti að hugnast neytendum: „Borið saman við annað dýraprótín er villtur fiskur með margfalt minna kolefnisspor. Jafnvel þó að flytja þurfi íslenska fiskinn nokkuð langa leið á markað, með skipum eða flugi, þá er kolefnissporið engu að síður mjög lágt og ættu þeir neytendur sem vilja leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum hugsanlega að reyna að auka hlut fiskmetis í mataræðinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.11.24 564,58 kr/kg
Þorskur, slægður 21.11.24 656,67 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.11.24 374,69 kr/kg
Ýsa, slægð 21.11.24 341,33 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.11.24 315,48 kr/kg
Ufsi, slægður 21.11.24 337,30 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 21.11.24 393,63 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 15.11.24 103,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.11.24 Auður Vésteins SU 88 Lína
Ýsa 221 kg
Þorskur 190 kg
Ufsi 44 kg
Steinbítur 15 kg
Keila 7 kg
Samtals 477 kg
21.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Ýsa 180 kg
Þorskur 109 kg
Keila 29 kg
Steinbítur 17 kg
Langa 9 kg
Ufsi 5 kg
Samtals 349 kg
21.11.24 Hlökk ST 66 Landbeitt lína
Ýsa 4.050 kg
Þorskur 3.889 kg
Steinbítur 4 kg
Samtals 7.943 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.11.24 564,58 kr/kg
Þorskur, slægður 21.11.24 656,67 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.11.24 374,69 kr/kg
Ýsa, slægð 21.11.24 341,33 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.11.24 315,48 kr/kg
Ufsi, slægður 21.11.24 337,30 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 21.11.24 393,63 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 15.11.24 103,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.11.24 Auður Vésteins SU 88 Lína
Ýsa 221 kg
Þorskur 190 kg
Ufsi 44 kg
Steinbítur 15 kg
Keila 7 kg
Samtals 477 kg
21.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Ýsa 180 kg
Þorskur 109 kg
Keila 29 kg
Steinbítur 17 kg
Langa 9 kg
Ufsi 5 kg
Samtals 349 kg
21.11.24 Hlökk ST 66 Landbeitt lína
Ýsa 4.050 kg
Þorskur 3.889 kg
Steinbítur 4 kg
Samtals 7.943 kg

Skoða allar landanir »