Hvalskoðunarbáti var vísað tafarlaust til hafnar í Reykjavík í gærkvöldi þar sem fleiri farþegar voru um borð en leyfi gera ráð fyrir auk þess sem tilkynningarskyldu var ekki sinnt. Landhelgisgæslan kveðst líta málið alvarlegum augum og verður málið kært til lögreglu, enda ekki í fyrsta sinn sem gæslan hefur afskipti af umræddum bát vegna sambærilegra mála, að því er fram kemur í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn 200 mílna.
Þá segir: „Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar varð vör við að farþegabátur væri á sjó nærri Reykjavík með of marga farþega um borð og hefði auk þess ekki sinnt tilkynningarskyldu eins og lög kveða á um.“ Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar hafi verið kölluð út á varðbátnum Óðni sem fór til eftirlits um borð í bátinn. Kom í ljós að skipstjórinn var ekki með tilskilin leyfi auk þess sem Landhelgisgæslan hafði ekki upplýsingar um fjölda farþega.
Við talningu farþega kom í ljós að um borð voru 53 auk þriggja manna áhafnar en báturinn hafði leyfi fyrir 50 farþegum. Var bátnum tafarlaust vísað til hafnar og óskaði Landhelgisgæslan eftir því að lögregla tæki á móti honum í höfn þar sem skýrsla var tekin af áhöfninni.
„Ekki þarf að hafa mörg orð um hve alvarlegt ástand hefði getað skapast ef báturinn hefði lent í hafsnauð, sérstaklega í ljósi árstíma og að allra veðra er von,“ segir í svari Landhelgisgæslunnar. Þá er áréttað mikilvægi þess að gæslunni sé kunnugt um fjölda farþega „svo hægt sé að skipuleggja björgunaraðgerðir með réttum hætti ef illa fer. Þá er rétt að geta þess að leyfður farþegafjöldi tekur meðal annars mið af öryggisbúnaði um borð.“