Mestu hagsmunirnir í fraktflugi til Bandaríkjanna er flutningur á ferskum fiski og mun Icelandair Cargo leggja mikla áherslu á að tryggja að útflutningur verði ekki fyrir áhrifum ferðabanns yfirvalda í Bandaríkjunum.
„Við höfum verið í samtali við okkar viðskiptavini í morgun um að halda ótrauðir áfram og mæta þeim áskorunum sem verða á veginum. Það er ekki bann á fraktflug þannig að við getum flogið á fraktvélum til Ameríku ef þörfin er til staðar,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, í samtali við 200 mílur um áhrif ferðabann bandarískra yfirvalda milli Evrópu og Bandaríkjanna.
„Við áttum okkur alveg á því að það eru miklir hagsmunir í húfi og markaðirnir þola ekki að það falli niður framboð af vörunni. Það getur haft skaðleg áhrif til langs tíma. Við munum gera allt sem við getum til þess að halda flugi gangandi til Bandaríkjanna með fiskinn. Þetta snýst fyrst og fremst um hann, þar eru mestu hagsmunirnir,“ segir Gunnar Már.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Bandaríkjanna hefur vaxið á undanförnum árum og voru fluttar sjávarafurðir vestur um haf fyrir 22,9 milljarða króna í fyrra, 21 milljarð árið 2018 og 17,4 milljarða árið 2017, að því er fram kemur á Radarnum.
Talsvert af sjávarafurðum eru fluttar með farþegaflugi og bendir framkvæmdastjórinn á að ekki sé búið að loka fyrir allt farþegaflug til Bandaríkjanna. „Þannig að við munum nýta það eins og því vindur fram. Það er full áætlun í dag og full áætlun á morgun. Svo verður einhver minni áætlun eftir það útaf banni, en það verður líklega flogið á einhverja staði og munum nýta það,“ segir Gunnar már
Hann útskýrir að ef farþegaflug mætir ekki eftirspurn eftir vöruflutningum mun félagið leita til þess að koma á fraktflugi eftir þörfum viðskiptavina. „Við erum með mikla flutninga til Bandaríkjanna. […] En fraktflug er ennþá heimilt, þannig að við munum horfa til þess.“
Spurður hvort breytingar á tilhögun flugs, sem leiðir til þess að flogið sé með vörur á aðra áfangastaði en vanalega er gert, mun kalla á sérstakar ráðstafanir, svarar Gunnar Már: „Nei. Við getum í raun og veru flogið ótakmarkað á fraktvél til Bandaríkjanna, það er ekkert vandamál. En ef við erum að fljúga á einhverja sérstaka velli erum við mjög vel tengd landflutningum á öllum okkar stöðum, þannig að við getum alltaf leyst það. Ef við komum vörunni inn fyrir landamærin eða nálægt áfangastað, þá leysum við það.“