Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um veiðar íslenskra skipa á makríl á árinu 2020 og felur hún í sér að heildarkvóti verði 152.141 tonn, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Er kvótinn því 12 þúsund tonnum, eða 7,8%, meiri en á síðasta ári þegar hann var um 140 þúsund tonn.
Fram kemur á vef stjórnarráðsins að Íslend hefur miðað ákvarðanir sínar út frá 16,5% af ákvörðunum Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins um heildarafla hverju sinni, allt frá árinu 2014 þegar samkomulag ríkjanna gekk í gildi.
„Á síðasta ársfundi NEAFC (The North East Atlantic Fisheries Commission) var samþykkt tillaga þess efnis að miða skuli heildarafla ársins 2020 við 922.064 tonn, óháð ósamkomulagi um skiptingu. Þar sem Ísland er ekki aðili að makrílsamkomulagi, þá reiknast 16,5% af 922.064 tonnum sem 152.141 tonn,“ segir í færslunni.
Breytt viðmið í kolmunna og síld
Heildarafli ársins 2020 í norsk-íslenskri síld verður 91.243 tonn sem er 10,7% minna en í fyrra þegar hann var 102.174 og 245.101 tonn í kolmunna sem er 4.000 tonnum meira en 2019.
Þá segir að „sem viðleitni af hálfu Íslendinga til að hreyfa við viðræðum strandríkjanna í deilistofnunum þremur, þá voru um áramót gefnar út reglugerðir í norsk-íslenskri síld og kolmunna í samræmi við síðustu samþykktu samningstölu.“
En þar sem þessi viðleitni hefur ekki fengið undirtektir samningsaðilanna, hefur ráðherra „endurskoðað þessar ákvarðanir og hefur ákveðið að miða við sama hlutfall af samþykktri heildarveiði NEAFC og fyrir síðasta ár sem var 17,36% fyrir norsk-íslenska síld og 21.1% í tilviki kolmunna. Með þessu er Ísland þó ekki að fylgja fordæmi annarra strandríkja sem hafa hækkað hlut sinn frá síðasta ári.“