Starf Fisktækniskóla Íslands hefur verið í örri þróun allt frá stofnun og er þar stöðugt leitað leiða til að auka námsframboðið í takt við óskir nemenda og þarfir atvinnulífsins. Undirbúningsfélag um fisktækninám var stofnað formlega hinn 16. mars 2009 eftir þriggja ára undirbúning en félagið er í eigu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Grindavíkurbæjar, fræðsluaðila á Suðurnesjum auk stéttarfélaga og fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu. Tilraunakennsla í sjávarútvegstengdum greinum fyrir ungt atvinnulaust fólk á Suðurnesjum hófst árið 2009 og var það gert í samstarfi við Vinnumálastofnun. Skólinn fékk formlegt leyfi sem framhaldsskóli 2012 og hefur starfsemin farið vaxandi síðan.
Ásdís Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Fistækniskólanum, útskýrir hvernig námið er uppbyggt: „Meginnámið er tveggja ára grunnám þar sem skiptast á bóklegar og verklegar annir og nemendur læra bæði kjarnafög á framhaldsskólastigi og sérfög tengd sjávarútvegi. Á þriðja ári skiptist námið síðan í nokkrar sérbrautir sem kenndar eru í samvinnu við Matvælaskóla Sýnis, Marel, Háskólann á Hólum og ýmis fyrirtæki í sjávarútvegi. Eru þrjár brautir í boði í augnablikinu: fiskeldi, gæðastjórnun og Marel vinnslutækni.“
Grunnámið er upplagt fyrir þá sem skortir menntun á framhaldsskólastigi og hægt að bæta við það nám til að ljúka stúdentsprófi. Sérbrautirnar eru opnar öllum sem fullnægja kröfum skólans og segir Ásdís að margir sjái þetta stutta en hnitmiðaða viðbótarnám sem góða leið til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. „Sérnámið nýtist ekki bara þeim sem vinna hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og höfum við t.d. fengið til okkar nemendur í gæðastjórnunarnámið sem ganga í störf í hótel- eða veitingageira, kjöt- eða matvælageira eða hvar sem matvæli koma við sögu og miklu skiptir að rétt sé staðið að gæða- og öryggismálum,“ útskýrir Ásdís. Hún minnir á að það eigi við um marga sem hafa áhuga á að mennta sig hjá Fisktækniskólanum að þeir geta stytt námstímann með raunfærnimati, en frá árinu 2015 hafa um 460 manns hafa fengið raunfærnimat í gegnum Fisktækniskólann. Skólinn er til húsa í Grindavík og hægt að sinna náminu ýmist í skólastofu eða í gegnum fjarkennslubúnað, og þá ýmist að nemendur geta verið við tölvuna heima hjá sér eða nýtt aðstöðuna hjá fræðslusetrum um allt land.
Ánægjulegt er að sjá hve mikill áhugi er á náminu og segir Ásdís að nemendurnir sjái bæði hve mörg góð atvinnutækifæri bíða þeirra í bláa hagkerfinu, en einnig að störfin í sjávarútvegi eru að breytast og kalla á aukna menntun og sérhæfingu. „Sá búnaður sem notaður er í greininni er orðinn svo fullkominn að greinin gerir í vaxandi mæli þá kröfu til starfsfólks að það hafi ágætis tæknilegan grunn, og hefur flökunarhnífurinn vikið fyrir spjaldtölvunni.“
Þá hefur komið í ljós að nám hjá Fisktækniskólanum opnar fólki dyr innan greinarinnar. Segir Ásdís að nú til dags sé ekki endilega að því hlaupið fyrir ófaglærða og óreynda að fá störf í sjávarútvegi eða fiskeldi en í gegnum námið hjá Fisktækniskólanum – og ekki síst í gegnum faglegu kennsluna – eru nemendur Fisktækniskólans að ná ágætis fótfestu í greininni og algengt að þeirra bíði freistandi atvinnutilboð við útskrift. „Verklegi hlutinn er ekki launaður, enda um eiginlegt nám að ræða, og á fyrstu önninni felst verknámið einkum í að heimsækja fyrirtæki og öðlast góðan skilning á hvernig þau starfa. Á seinni verklegu önninni fá nemendurnir að sýna betur hvað í þeim býr og oft að fyrirtækin sem hafa nemendurna hjá sér í starfsnámi falast eftir að ráða þá til vinnu.“
Nú er unnið að því að bæta við tveimur nýjum sérbrautum svo að í heildina verða sjö brautir í boði. Annars vegar er um að ræða vinnslutæknibraut, sem hefur það að markmiði að þjálfa fólk til starfa við viðhald og stillingar á mismunandi fiskvinnsluvélum, svo sem hausara-, flökunar- og roðvélar. „Þessi braut er góð viðbót við námsbraut okkar í Marel-vinnslutækni – enda miklar breytingar nú í vinnslu til að mæta aukunum kröfum fyrirtækja um nýtingu sjávarafurða,“ segir Ásdís. „Hins vegar er námsbraut þróuð í samvinnu við Sjávarklasann þar sem nemendur fá góðan grunn fyrir sjávarútvegstengda nýsköpun.“
Fiskvinnsluvéla-brautin ætti að gera nemendur að mjög fjölhæfum og eftirsóknarverðum starfskröftum bæði á sjó og landi, en nýsköpunar-brautin undirbýr nemendur fyrir þær áskoranir sem fylgja nýsköpun og stofnun sprotafyrirtækja. Ásdís minnir á að sérbrautirnar séu opnar bæði þeim sem hafa lokið grunnnámi fisktækniskólans og eins þeim sem hafa menntað sig annars staðar eða eiga að baki starfsferil í sjávarútvegi. „Nýsköpunarnámið getur hentað þessum hópi vel og veitir þeim m.a. góða yfirsýn yfir fyrirtækjarekstur og þau mörgu svið sem að frumkvöðull þarf að kunna skil á.“
Spurð hversu krefjandi námið er segir Ásdís að fyrsta og annað árið í grunnámi Fisktækniskólans sé sambærilegt við fyrsta og annars árs nám í framhaldsskóla og smám saman aukist kröfurnar um að nemendur skipuleggi nám sitt vel og tileinki sér sjálfstæð vinnubrögð. „Þegar komið er á þriðja ár aukast kröfurnar enn frekar, rétt eins og í stúdentsnámi, og brýnt að nemendur hafi tamið sér skilvirkni og aga.“
Ýmiss konar stuðningur er í boði og nefnir Ásdís m.a. að Fisktækniskólinn búi svo vel að hafa stoðkennara sem er pólskumælandi, og er til taks fyrir þá nemendur sem eru af pólskum uppruna og hafa ekki enn náð mjög góðu valdi á íslenskunni. „Almennt eiga þessir nemendur ekki í miklum vanda með námið en það eru nokkrir íslenskuáfangar í grunnáminu sem þeim gætu þótt krefjandi og hjálpar stoðkennarinn þeim að ráða betur við námsefnið.“
Ásdís segir að hraðinn í tækniþróun fiskvinnslunnar hafi verið áberandi mikill síðustu fimm árin og áhugi sé bæði hjá vinnslunum og tæknifyrirtækjunum á því að til verði námsbrautir, þar sem fiskvinnslustarfsmenn geti sótt sér aukna þekkingu á daglegri vinnu með tækjabúnaðinn.
„Það vilja allir að starfsmenn í vinnslunum kunni á nýjustu tækin og tólin og geti sem best nýtt möguleika þeirra. Tæknin er að skila okkur aukinni nýtingu, auknum gæðum afurða og þannig mætti áfram telja. Meiri þekking starfsmanna á tækninni er því allra hagur. En svo má ekki horfa framhjá því að með aukinni tækni í fiskvinnslunni hefur áhugi ungs fólsk á greininni aukist. Fjórða iðnbyltingin er tækifæri fyrir ungt og menntað fólk. Við erum á spennandi tímapunkti fyrir fiskvinnsluna,“ segir Ásdís.