Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar mótmælir kröftuglega ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að stöðva fyrirvaralaust grásleppuveiðar við landið og skorar á Alþingi að endurskoða strax núverandi fyrirkomulag grásleppuveiða, að því er fram kemur í ályktun bæjarstjórnarinnar vegna reglugerðar sem bannaði veiðarnar frá og með miðnætti aðfararnótt sunnudags 3. maí.
Bætist bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar í hóp þeirra sem hafa harðlega gagnrýnt ákvörðunina, en áður hefur Landssambands smábátaeigenda og bæjarráðs Akraness mótmælt henni.
„Stykkishólmshöfn hefur verið einn helsti löndunarstaður grásleppu á landinu um árabil. Af 5.000 tonna heildarafla í grásleppu á síðasta ári var 30% hans veiddur við innanverðan Breiðafjörð. Í Stykkishólmi var 22% af öllum grásleppuafla landsins landað. Hlutfall grásleppu í lönduðum heildarafla í Stykkishólmshöfn nam 35% árið 2019,“ segir í ályktuninni.
Þá segir að „í ljósi núverandi stöðu efnahags- og atvinnumála vegna kórónuveirunnar er um að ræða gríðarlegt viðbótaráfall fyrir samfélagið í Stykkishólmi. Gildir það um grásleppusjómennina, vinnslurnar og þeirra starfsfólk auk þess sem þetta hefur veruleg áhrif á tekjur sveitarfélagsins í gegnum hafnarsjóð og þau störf sem hugsanlega munu tapast. Þá eru viðskiptasambönd og samningar vinnsluaðila í hættu á að glatast. Takmörkunin mun að óbreyttu hafa áhrif á 150 störf hér á svæðinu og ætla má að um sé að tefla hálfan milljarð í verðmætasköpun.“
Telur bæjarstjórn ástæðu til þess að forðast frekari efnahagstjón og mikilvægt er að nýta þær bjargir sem standa til boða í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið um stjórn fiskveiða.
Bent er á að grásleppuveiðar við Breiðafjörð hafi almennt ekki farið af stað fyrr en 20. maí til þess að vernda æðarvarp á svæðinu og segir bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar að þeir 15 dagar sem heimilt verður að veiða grásleppu frá 20. maí munu ekki bæta upp þá 44 daga sem sjómenn gerðu ráð fyrir.
„Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skorar á Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða heimild til grásleppuveiða á innanverðum Breiðafirði og fjölga veiðidögum þar til samræmis við áður gildandi reglugerð.“