Sjö skip sem skráð eru á Íslandi eru með útblásturshreinsunarbúnað, eða svokallaðan vothreinsibúnað, sem til þess er fallinn að draga úr losun brennisteins, að því er fram kemur í svari Samgöngustofu við fyrirspurn 200 mílna. Lagt er til að skoðað verði að banna aðra af tveimur tegundum slíks búnaðar.
Rannsóknanefnd samgönguslysa hefur beint því til stjórnvalda að skoða hvort banna eigi opin kerfi, þar sem úrgangurinn er talinn ógna lífríki í hafinu. Kemur þetta fram í lokaskýrslu nefndarinnar um sótmengun í höfninni í Vestmannaeyjum sem kom til vegna hreinsunarbúnaðs Lagarfoss, flutningaskipi Eimskips.
Til eru tvær tegundir slíkra hreinsunarkerfa, annars vegar opin kerfi þar sem úrgangi sem safnast er dælt í sjóinn og hins vegar lokuð kerfi þar sem úrgangi er safnað og urðaður í landi. „Öll íslensku skipin sjö hafa afgasbúnað með lokaða hringrás. Slíkur búnaður safnar hreinsuðum efnum í gegnum síur sem síðan ber að flytja í land og farga á löglegan hátt,“ segir í svarinu. Skipin eru öll fiskiskip.
1. janúar 2020 voru settar reglur á Íslandi í samræmi við alþjóðasamning gegn mengun hafsins (MARPOL) um takmarkað brennisteinsmagn í eldsneyti skipa. það sé í mesta lagi 0,1%. Skip „uppfylla þessi skilyrði með því að nota olíu sem inniheldur mest 0,1% brennistein. Afgashreinsibúnaður í skipum er ekki lögbundinn, einungis eru til staðlar um smíði og búnað á þeim,“ segir í svari Samgöngustofu.
Búnaðurinn á 318 milljónir króna
Flutningaskip Samskipa og Eimskips eru ekki skráð á Íslandi og því er opið hreinsunarkerfi um borð í Lagarfossi ekki skráð hjá Samgöngustofu.
Bæði Lagarfoss og nýi Dettifoss eru með útblásturshreinsunarbúnað og segir í svari Eimskips vegna hreinsunarbúnaðarins að hann hafi ásamt uppsetningu í Lagarfossi kostað tvær milljónir evra, jafnvirði 318 milljóna króna og „er þannig hannaður að hægt er að breyta honum í lokað kerfi. Við fylgjumst vel með þróuninni í þessum málum og munum ávallt fylgja þeim reglum sem gilda hverju sinni,“ segir í svari Eimskips.
Fram kemur í svari Samskipa vegna fyrirspurnar 200 mílna að skipin Arnarfell og Helgafell séu með útblásturshreinsunarbúnað. „Við fylgjumst vel með nýjungum varðandi umhverfismál og sjálfbærni hjá Samskipum,“ segir í svarinu.
Uppfært: Áður sagði að ekki hafi borist svar við fyrirspurn 200 mílna um hreinsunarbúnað í skipum Samskipa. Svar frá fyrirtækinu barst í dag 12. maí og var fréttin uppfærð með tillit til þess klukkan 13:55.