Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur staðfest tillögu Hafrannsóknastofnunar að nýju áhættumati vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Það gerir ráð fyrir að heimilt sé að ala 106 þúsund tonn í sjó.
Fram kemur að „áhættumat erfðablöndunar er samkvæmt lögum um fiskeldi skilgreint sem mat á því magni frjórra eldislaxa sem strjúka úr eldi í sjó og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna og metið er að erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, verði það mikil að tíðni arfgerða villtra stofna breytist og valdi versnandi hæfni stofngerða þeirra“.
Hið nýja áhættumat gerir ráð fyrir því að ala megi 106.500 tonn af laxi í sjó mælt í hámarkslífmassa og felur það í sér 20 prósent aukningu á heimilu eldi frjórra laxa. Er þetta í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar sem kynntar voru í mars, en ráðleggingarnar byggðust á nýrri aðferð við gerð áhættumats auk þess sem nú sé miðað við heildarlífmassa en ekki framleiðslumagn.
Fyrri áhættumat gerði ráð fyrir að hámarksframleiðslumagn yrði 71 þúsund tonn, yrði fyrra mat uppreiknað með nýju aðferðinni myndi það gera ráð fyrir að hámarkslífmassi í sjó yrði 88,75 þúsund tonn en það er það sem þarf til þess að hægt sé að framleiða 71 þúsund tonn.
Fram kemur í tilkynningunni að hámarkseldismagn á frjóum laxi verði 64.500 tonn á Vestfjörðum og 42.000 tonn á Austfjörðum. „Á Vestfjörðum er stærsta breytingin sú að við endurskoðað mat verður leyfilegt að ala 12.000 tonn í Ísafjarðardjúpi. Jafnframt verður leyfilegt að ala 2.500 tonn í Önundarfirði. Samkvæmt hinu staðfesta áhættumati verður eldi ekki stundað nær veiðiám í botni Ísafjarðardjúps en sem nemur línu frá Ögurnesi að Æðey og Hólmasundi. Ef notuð eru 400 gramma seiði má auka hámarkslífmassa í Ísafjarðardjúpi í 14.000 tonn. Á Austfjörðum verður aukning á hámarkseldi um 60 prósent og kemur sú aukning fram í Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Seyðisfirði. Í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði er lagt til að hámarkslífmassi geti orðið 14.000 og 18.000 tonn ef 400 gramma seiði eru sett út í kvíar.“