Atvinnuvegaráðuneytinu barst tilkynning um breytingu á eignarhaldi í Samherja í 4. nóvember í fyrra vegna tilkynningarskyldu við fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtæki, en opinberlega sagði Samherji frá breytingum í eignarhaldi fyrirtækisins 15. maí.
Um er að ræða framsal eigenda Samherja á hlutafé í innlendri starfsemi félagsins til afkomenda sinna og er eitt þeirra félaga sem um ræðir K&B ehf. í 49% eigu Baldvins Þorsteinssonar sem er skráður með lögheimili í Hollandi.
Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, atvinnuvegaráðherra, við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, en Kjarninn fjallaði fyrst um málið. Fram kemur í svarinu að fimm sinnum hafi verið tilkynnt um erlenda fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á síðastliðnum tíu árum.
Á grundvelli tilkynningarskyldu laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hafa ráðuneytinu borist eftirfarandi tilkynningar um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi:
20. júlí 2010 var tilkynnt um fjárfestingu Nautilus Fisheries Ltd., Hong Kong, í Storm Seafood ehf. í gegnum einkahlutafélögin Skiphól ehf. og Austmann ehf.
29. maí 2013 var tilkynnt um fjárfestingu Agatha's yard ehf. í Nóntanga ehf. Agatha's yard ehf. er í eigu tveggja erlendra aðila en tilgangur Nóntanga ehf. er m.a. vinnsla sjávarafurða, fiskveiða og skyldur rekstur.
14. desember 2015 barst tilkynning frá HB Granda hf. um að í hlutaskrá félagsins væru skráðir erlendir aðilar:
3. janúar 2016 barst tilkynning frá HB Granda hf. um að annar erlendur aðili hefði bæst við í hlutaskrá félagsins og hins vegar um að erlendur hluthafi hefði bætt við eignarhlut sinn í félaginu:
4. nóvember 2019 var tilkynnt um fjárfestingu K&B ehf. í Samherja hf. en K&B ehf. er að 49% hluta í eigu erlends aðila. Samherji hf. stundar hvorki fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands né rekur fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi í eigin nafni en á að fullu eða að hluta fyrirtæki í slíkri starfsemi.