Akraneskaupstaður og Brim hafa tekið höndum saman og stofnað sameiginlegt þróunarfélag. Morgunblaðið greindi fyrst frá áformunum, en gert er ráð fyrir áfangaskiptri uppbyggingu til langs tíma þar sem lagt verður upp með uppbyggingu í ferðaþjónustu, heilsu og hátækni.
Brim er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu og þá er gert ráð fyrir nýrri íbúabyggð á Breið. Þar eiga Akraneskaupstaður og Brim meirihluta lóða og fasteigna á svæðinu, en mikil tækifæri eru talin til uppbygginar.
Ráðherra verndari verkefnisins
Markmið aðila er að skapa umhverfi þar sem miðlun ólíkrar þekkingar á sviði tækni, lýðheilsu og umhverfismála muni stuðla að rannsóknum og nýsköpun í fremstu röð sem muni leysa úr ólíkum áskorunum og vandamálum sem að heiminum steðja. Þá verði lögð áhersla á verkefni sem stuðla á einn eða annan hátt að því að Ísland nái að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum
Í tilefni af stofnun félagsins hefur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tekið að sér að vera sérlegur verndari verkefnisins og skrifað undir viljayfirlýsingu um fyrsta verkefni þróunarfélagsins um stofnun rannsóknar- og nýsköpunarseturs auk samvinnurýmis á Breið.
Áhersla á nýsköpun
Byggt verður upp rannsóknar- og nýsköpunarsetur, aðstaða sem býður upp á lifandi starfsemi og innblástur til skapandi lausna þvert á greinar. Stafræn smiðja (Fab Lab) verður komið fyrir í húsnæði sem gerir frumkvöðlum kleift að vinna saman að hönnun og útfærslu hugmynda. Þá verður samstarf við lykil atvinnugreinar og öflug fyrirtæki um rannsóknir og nýsköpun í snjallvæðingu í samstarfi við skóla landsins.
Höfuðstöðvar Brim.
mbl.is/Hari