Lagt er til að skilgreining á tengdum aðilum vegna takmarkanna um hámarkshlutdeild aflamarks verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra í tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Lokaskýrsla stjórnarinnar hefur verið afhent Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.
Þá er einnig lagt til að „ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin séu talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða“ og að „skilgreint verði hvað felist í raunverulegum yfirráðum.“ Jafnframt er talið nauðsynlegt að Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til afla gagna.
Í verkefnisstjórninni sátu þau Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður, Elliði Vignisson, bæjarstjóri, Hulda Árnadóttir, lögmaður og Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur.
Oddný skilaði fyrirvara með skýrslunni og telur að gildandi tilhögun skilgreiningar á tengdum aðilum geri það að verkum að einum aðila getur verið heimilt að fara allt að 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar fiskiskipa auk þess sem viðkomandi geti „átt rétt undir helming í öllum öðrum fiskiskipum sem fara með hin 88 prósentin. Þetta þýðir að sami aðilinn geti farið með meiri hluta af heildarverðmæti aflahlutdeildar sem er til skiptanna ár hvert.“
Leggur hún til að viðmið um tengda aðila verði 25% eignarhlutur með sama hætti og þegar skilgreindir eru raunverulega eigendur félaga.
Verkefnastjórninni var falið í mars 2019 að fjalla um athugasemdir sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu og gera tillögur um úrbætur í rekstri stofnunarinnar. Einnig átti hún að leggja mat á fjárþörf Fiskistofu og setja fram ábendingar um nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum til að tryggja skilvirkni í störfum hennar.
Lagt er til að Fiskistofa hefji tilraunir með notkun myndavélakerfa til eftirlits, bæði um borð í skipum og í höfnum. Jafnframt verði komið á heildstæðu viðurlagakerfi við brotum gegn fiskveiðilöggjöfinni þannig að ávallt séu allar sömu heimildir til staðar til að bregðast við hverskyns brotum á sem virkastan hátt, auk þess sem Fiskistofu verði veitt heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir vegna meiri háttar brota gegn fiskveiðilöggjöfinni.
Þá er talið nauðsynlegt að innleiða áhættustýringu og áhættustefnu við sjóeftirlit og vigtun sjávarafla. Auk þess sem gera þurfi auknar kröfur um búnað sem nýtist við eftirlit með endur- og heimavigtun sjávarafla. En Landhelgisgæslu Íslands verði falið aukið hlutverk við framkvæmd sjóeftirlits en að Fiskistofa fari með stjórnsýsluþátt verkefnisins og beri ábyrgð á áhættustýringu.
Sér