Heildarafli íslenskra fiskiskipa nam 1.047.568 tonnum árið 2019. Það er um 17% minni afli en landað var árið 2018, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands. Þar segir að samdráttur í aflamagni skýrist að mestu af minni uppsjávarafla.
Þrátt fyrir samdráttinn í heildarafla jókst aflaverðmæti um 13,4% milli ára og nam það 145 milljörðum króna árið 2019, en var 128 milljarðar króna árið 2018.
Verðmæti botnfiskaflans jókst um fimmtung
Alls veiddust rúmlega 480 þúsund tonn af botnfiski sem er álíka mikið og árið 2018. Hins vegar nam verðmæti aflans 112,3 milljörðum króna í fyrra á móti 90,7 milljörðum árið 2018, sem gerir um 24% aukningu.
Mesti aflinn var í þorski og var 273 þúsund tonnum af honum landað í fyrra sem er um 0,7% minna en árið á undan. Þrátt fyrir minniháttar breytingu í heildarafla jókst aflaverðmætið um 22% og endaði í rétt tæplega 70 milljörðum króna árið 2019. Aflaverðmæti meðal botnfiska jókst mest milli ára í ýsunni eða 36%, en 19,2% meira var veitt af henni 2019 en 2018.
27,7% minni uppsjávarafli
Afli uppsjávartegunda var ríflega 534 þúsund tonn árið 2019 sem er 27,7% minni afli en árið 2018, en loðnubrestur skýrir þorra samdráttar í heildarafla.
Af uppsjávarafla veiddist mest af kolmunna, rúm 268 þúsund tonn. Aflaverðmæti uppsjávaraflans samanstóð af makríl, að verðmæti tæplega 8,5 milljarðar króna, kolmunna 7,2 milljarðar og síld 5,9 milljarðar.
Af flatfiski veiddust rúmlega 22 þúsund tonn árið 2019 sem er 18,1% minna en á fyrra ári. Aflaverðmæti flatfiskafurða nam 9,3 milljörðum sem er 8,3% lægra en árið 2018. Löndun á skelfisk og krabbadýrum var rúmlega 10 þúsund tonn samanborið við 12,5 þúsund tonn árið 2018. Verðmæti skel- og krabbadýra nam tæplega 1,9 milljörðum sem er 28,5% minna en árið 2018.