Samtals sóttu 394 einstaklingar á aldrinum þrettán til sextán ára Sjávarútvegsskóla unga fólksins í sumar. Kennsla fór fram á nokkrum stöðum á landinu; á Austfjörðum, á Norðurlandi Eystra, í Reykjavík, á Sauðárkrók og í Vesturbyggð, að því er fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum. Í sumar var í fyrsta sinn kennt í Reykjavík, á Sauðárkrók og í Vesturbyggð.
Kennsla stóð yfir í júní og júlí og fékk hver hópur kennslu í eina viku, í hverjum hóp voru um það bil 20 til 25 nemendur. Átta kennarar sinntu kennslu í sumar og eru þeir allir annaðhvort útskrifaðir sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri eða eru enn í námi við skólann.
Nemendur fá í skólanum tækifæri til að kynnast greininni.
Ljósmynd/Aðsend
Nemendur skoða fiskeldisstöð Arctic Fish.
Ljósmynd/Aðsend
„Kennslufyrirkomulagið var þannig að nemendur fengu bóklega fræðslu í formi fyrirlestra og leikja, fengu að meta gæði fisks með skynmati, heimsóttu fyrirtæki í sjávarútvegi, fiskeldi og ýmis fyrirtæki tengd sjávarútvegi þar sem þau fengu fræðslu um starfsemi þeirra. Einnig voru kynntir fyrir þeim náms- og atvinnumöguleikar í greininni,“ segir í tilkynningunni.
Skólinn er samstarfsverkefni vinnuskóla byggðarlaga, fiskeldis- og sjávarútvegsfyrirtækja, hafnarsamlaga, fyrirtækja tengdum sjávarútvegi og Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri.
Stefnt að fiskeldisskóla
Magnús Víðisson verkefnisstjóri við Sjávarútvegsskólann heimsótti sérstaklega Arctic Fish ehf og Arnarlax ehf og kynnti sér starfsemi þeirra með það í huga að hanna námsefni fyrir Fiskeldisskóla unga fólksins sem áætlað er að kenna næsta sumar á þeim stöðum þar sem rekið er fiskeldi, segir í tilkynningunni.
Þar er sagt frá því að Fiskeldisskólinn verður starfræktur með sama sniði og Sjávarútvegsskólinn.