Samherji hefur birt á Youtube fyrsta heimildarþátt fyrirtækisins um Seðlabankamálið svokallaða, en það nær til ásakana sem fram komu í Kastljósi RÚV árið 2012 í garð félagsins um að það hefði selt karfa á undirverði til eigin dótturfélags erlendis og að um væri að ræða brot gegn þágildandi gjaldeyrislögum. Málinu lauk í lok árs 2018 með því að Hæstiréttur felldi niður 15 milljóna króna sekt sem Seðlabankinn hafði lagt á.
Í þættinum er sagt frá því að rannsókn Seðlabanka Íslands og tilheyrandi húsleit hjá Samherja hafi orðið í kjölfar þess að Helgi Seljan hafi við gerð Kastljósþáttar borið skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs undir Seðlabankann sem benti til að fyrrnefndar ásakanir um sölu á undirverði væru réttar.
Hins vegar er talið að umrædd skýrsla hafi ekki verið gerð af Veðlagsstofu skiptaverðs og því velt upp hvort Helgi hafi átt við gögn.
„Það var eitthvað sem ýtti Seðlabankanum af stað og eftir því sem við komumst næst eru það einhver gögn sem Helgi Seljan, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, fór með á fund gjaldeyriseftirlits Seðlabankans,“ segir Garðar Gíslason, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi varaskattrannsóknarstjóri, í þættinum.
Umrædd skýrsla er í þættinum sögð hafa verið aðalheimild í þætti Kastljóss 27. mars 2012 um viðskipti Samherja. Í svörum sem Samherja hafa borist frá Verðlagsstofu skiptaverðs kemur fram að stofnunin hafi aldrei gert skýrslu af því tagi sem Helgi er sagður vísa til og er sterklega gefið í skyn að Helgi hafi við gerð Kastljósþáttarins árið 2012 átt við gögn frá Verðlagsstofu skiptaverðs.
„Það er allt sem bendir til þess að Helgi hafi ekki haft nokkurn skapaðan hlut í höndunum þegar hann hóf, má segja, málarekstur sinn gagnvart Samherja 2012,“ segir Jón Óttar Ólafsson, afbrotafræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, í þættinum.
„Ef það reynist rétt að Helgi Seljan hafi átt við einhver gögn eða einhverjar skýrslur er það auðvitað grafalvarlegur hlutur. Ef hann er að fara með slíkt skjal á fund stjórnvalds sem hefur valdheimildir og er að bera aðila sökum um að hafa framið refsiverðan verknað, þá er hann sjálfur að gera refsiverðan verknað,“ segir Garðar.
Í samtali við 200 mílur kveðst Helgi Seljan hafa horft á umræddan þátt Samherja í morgun, en vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu.
Undir lok þáttarins sem birtur var í morgun segir að RÚV hafi aldrei gefið Samherja kost á því að gera athugasemdir við ásakanirnar áður en þær birtust.
„Þetta var ekki í síðasta skipti sem Ríkisútvarpið og Helgi Seljan beittu þessum vinnubrögðum. Framhald í næsta þætti ...,“ segir í texta að lokum, en Helgi vann við þátt Kastljóss um starfsemi Samherja í Namibíu.