„Við erum núna að fá fisk frá Íslandi með reglubundnum hætti og koma sendingar með Eimskip á sunnudögum og með Samskipum á þriðjudögum. Við höfum fengið þó nokkra gáma,“ segir Martin Boyers, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðarins í Grimsby í Bretlandi.
Staðan er því nokkuð breytt frá því í vor, en síðdegis 26. mars var honum lokað í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins. Lokunin kom til vegna þess að eftirspurn hrundi þegar veitingastöðum í Bretlandi var lokað til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar og vegna þess að ekki var hægt að framkvæma uppboð í samræmi við sóttvarnareglur sem voru í gildi á þeim tíma.
„Framboðið er aftur komið á sinn stað og uppboðin eru komin í gang, við hófum starfsemina aftur í lok júní,“ segir Boyers. Hann útskýrir að það sem hafi komið markaðnum af stað á ný hafi verið að veitingastaðir voru opnaðir á ný. Hins vegar er eftirspurnin alls ekki jafn mikil og áður þar sem fjöldi fyrirtækja í afþreyingar- og þjónustugeiranum sé enn lokaður.
„Ég held að það skýri að hluta verðþróunina í uppboðunum. Fiskverð hefur hrunið í þessari viku. Ýsa er mjög ódýr í Bretlandi og enginn veit nákvæmlega af hverju. Á móti kemur að staðan getur verið allt önnur í næstu viku, þannig er þessi markaður.“
Reglurnar breytast ört
Hann segir að uppboðin fari nú fram með þeim hætti að tryggð sé fjarlægð milli einstaklinga, auk þess sem grímuskylda sé á staðnum og er ekki opið fyrir gesti. „Það getur verið erfitt að framkvæma uppboð þegar allir eru með grímu og eru að reyna að hrópa, en við reynum okkar besta. [...] Við krefjumst þess að allir sem koma þvoi sér um hendur og sótthreinsi hendurnar.“
Spurður um framhaldið kveðst Boyers ekki búast við öðru en að markaðurinn haldi áfram að vera opinn, en segir helsta óvissuþáttinn vera sóttvarnareglur breskra yfirvalda. „Þeir eru alltaf að breyta tilmælunum og við höfum áhyggjur af því að breytingar á reglunum geti leitt til þess að starfsemin stöðvist.“