Marel hefur samþykkt að kaupa allt hlutafé TREIF Maschinenbau GmbH. Kaupverðið, sem byggist á heildarvirði (e. enterprise value), er greitt með 128 milljónum evra í reiðufé, sem samsvarar um 21 milljarði kr., og 2,9 milljónum hluta í Marel sem Uwe Reifenhäuser, fráfarandi eigandi og forstjóri TREIF, hefur skuldbundið sig til að eiga í 18 mánuði frá kaupunum hið minnsta.
Þetta kemur fram í tillkynningu frá Marel.
Kaupin eruð háð hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda, og áætlað er að gengið verði frá kaupunum síðar á árinu.
Yfir 500 starfsmenn
Þá segir, að TREIF sé fjölskyldufyrirtæki sem eigi sér langa sögu nýsköpunar og vaxtar, með höfuðstöðvar í Oberlahr í Þýskalandi, og er leiðandi í skurðtæknilausnum og þjónustu (e. portioning, slicing and dicing) í matvælaiðnaði. Félagið var stofnað árið 1948 með áherslu á skurðarlausnir fyrir kjötiðnaðinn, sem enn í dag er þeirra stærsta starfssvið. TREIF er með yfir 80 milljónir evra í árstekjur og um 13 milljónir evra í EBITDA. Starfsmenn félagsins eru um 500 á starfsstöðvum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína. Traustur viðskiptavinahópur TREIF er fjölbreyttur, allt frá smásöluaðilum til stórra alþjóðlegra matvælaframleiðenda.
Skapar tækifæri til frekari vaxtar
Marel segir að TREIF sé frábær viðbót við Marel sem styrki vöruframboð á heildarlausnum og styður við sölu staðlaðra lausna. Þá muni alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel skapa tækifæri til frekari vaxtar í þjónustutekjum með þessari viðbót.
„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna um kaup Marel á TREIF, sem er sannkallaður leiðtogi á sínu sviði í okkar iðnaði. Með þessum kaupum koma saman fyrirtæki sem hvort um sig eru leiðtogar á sviði nýsköpunar og vöruþróunar og deila framtíðarsýn um umbyltingu í vinnslu matvæla,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í tilkynningunni.