Í nýju myndbandi hrekur Samherji hf. ásakanir á hendur félaginu, sem settar voru fram í Kveiksþætti Ríkisútvarpsins 26. nóvember í fyrra, um að Samherji hafi þvegið peninga sem komu frá starfsemi fyrirtæksins í aflandsfélaginu Cape Cod á Marshall-eyjum.
Þannig hafi Samherji átt að komast undan því að borga skatta af hagnaði sem varð af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Samherji segir einnig að það sé rangt að Cape Cod sé í eigu Samherja. Félagið sé staðsett á Kýpur og sé í eigu þýsks fyrirtækis.
Einnig eru meintar rangfærslur sem komu fram í þætti Kveiks leiðréttar, sem snúa að því að reikningum Cape Cod í norska bankanum DNB hafi verið lokað vegna brota í starfsemi Samherja í Namibíu. Samherji birti myndbandið á YouTube-rás sinni í morgun.
Gögnin sem Kveikur vann úr, og sýna áttu fram á meint peningaþvætti Samherja, komu frá Wikileaks. Í myndbandi Samherja segir hins vegar að til séu önnur gögn á síðu Wikileaks sem skýri eignarhald Samherja á Cape Cod. Ekkert hafi verið fjallað um þau gögn í þætti Kveiks.
Fullyrt var í þætti Kveiks að milljarðar hefðu flætt frá Samherja í Namibíu og til dótturfélagsins Cape Cod á Kýpur og öfugt. Samherji segir hins vegar í myndbandi sínu, og síðar tilkynningu á vef sínum, að þetta hafi einungis verið gert til þess að rússneskir og úkraínskir sjómenn, sem störfuðu hjá dótturfélögum Samherja, fengju greitt á réttum tíma.
Vegna þess að gjaldeyrishöft eru í Nambíu gat, að sögn Samherja, tekið langan tíma að fá leyfi fyrir því að borga sjómönnum félagsins og þurfti því Cape Cod á Kýpur að lána Samherja í Namibíu fyrir launagreiðslum sjómannanna.
Þá var fullyrt í þætti Kveiks að norski bankinn DNB hafi lokað reikningum Cape Cod vegna gruns um brot í starfsemi Samherja í Namibíu. Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja, segir í myndbandi Kveiks að þetta hafi verið gert vegna þess að DNB gerði athugasemdir að greiðslur væru að renna til rússneskra sjómanna í ljósi þess að Rússland hafði nýverið verið sett á svartan lista vegna innrásar þeirra á Krímskaga.
Þá eru gerðar athugasemdir í þætti Samherja við að fréttamenn Kveiks hafi ekki tiltekið að greiðslur til Rússlands og Úkraínu hafi vegið þungt í áhættumati DNB á starfsemi Samherja og dótturfélaga. Björgólfur Jóhannsson segir að fréttamenn Kveiks hafi þannig gefið í skyn að DNB hafi lokað reikningum Cape Cod vegna gruns um brot í starfsemi Samherja í Namibíu.
Björgólfur Jóhannsson segist vilja trúa því að um yfirsjón hafi verið að ræða. „Að setja svona fram, það er tvennt sem kemur til greina. Annaðhvort er það illvilji eða yfirsjón. Ég vil gefa mér það að þetta hafi verið yfirsjón.“