Frásagnir skipverja á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni bera það með sér að ástandið um borð, í veiðiferð þar sem Covid-19 einkenni fóru að gera vart við sig á meðal skipverja, hafi verið mjög alvarlegt og skipverjar margir hverjir verið alvarlega veikir með mikinn hita, öndunarörðuleika ásamt fleiri þekktum Covid einkennum, að sögn Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Á þriðja tug skipverja sóttu fund Verkalýðsfélags Vestfirðinga og skipverja af Júlíusi Geirmundssyni. Um var að ræða bæði staðfund og fjarfund enda þó nokkrir skipverjar veikir af Covid-19 og aðrir í sóttkví vegna smita á skipinu.
Umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum óskaði eftir því að frystitogaranum yrði snúið til hafnar þegar grunur vaknaði um kórónuveirusmit um borð. Þessi beiðni var ítrekuð en útgerðarfyrirtækið Hraðfrystihúsið Gunnvör hafnaði þessum beiðnum.
„Þrátt fyrir þessu skýru einkenni um sýkingu töldu hvorki útgerð né skipstjóri ástæðu til að tilkynna um veikindin til sóttvarnaryfirvalda eða Landhelgisgæslu eða halda skipi til hafnar þannig að hægt væri að framkvæma sýnatöku og koma í veg fyrir frekari smit um borð,“ segir í tilkynningu á vef verkalýðsfélagsins.
„Hver er að ljúga að okkur? spyrja skipverjar og vísa til þess að umdæmislæknir sóttvarna hafði lýst yfir að hann vildi fá skipverja í sýnatöku á þriðja degi veiðiferðar. En það er á skjön við það sem kom fram í Kastljósviðtali við sóttvarnarlækni í gær þar sem sóttvarnalæknir sagði að ekkert hafi bent til þess að um hópsmit væri að ræða. Allt frá öðrum degi veiðiferðar hafi skipstjórinn skipað mönnum í einangrun meðan þeir voru sem veikastir. Meðan skipverji var í einangrun þurfti klefafélagi hans að búa við það að sofa í sjónvarpsklefa án aðgangs að persónulegum munum sínum, s.s. hreinum fatnaði o.fl.“
Verkalýðsfélag Vestfirðinga segir að aðstæður skipverja hafi verið „vægast sagt skelfilegar þar sem þeir veiktust einn af öðrum og höfðu ekki aðrar bjargir en verkjalyf til að halda sér gangandi þar sem skipið var við veiðar og vinnslan í gangi. Síðar kom í ljós að lyfjabirgðir voru ekki nægar og þurfti þá að handvelja úr hverjir væru veikastir og þyrftu mest á verkjalyfjum að halda.“
Verkalýðsfélagið sakar útgerðina og/eða skipstjórann um skeytingarleysi gagnvart heilsu og öryggi skipverja í umræddri veiðiferð.
„Skipverjum var bannað að ræða veikindin út á við en máttu ræða við fjölskyldur. Ítrekað var að ræða ekki veikindin og á 3ju viku sjóferðar var sett á algert bann við að minnast á veikindin á samfélagsmiðlum eða við fréttamenn. Þannig var skipverjum haldið nauðugum og veikum við vinnu út á sjó, í brælu og lélegu fiskeríi á meðan Covid sýking herjaði á áhöfnina.“
Næstu skref verkalýðsfélagsins eru að leita samstarfs við önnur stéttarfélög sjómanna um borð í Júlíusi Geirmundssyni.
„Allir áhafnarmeðlimir í Verk Vest hafa ákveðið að fela félaginu umboð til að fara með sín mál er varða réttindi- og launamál. Þá hefur félagið fregnir af því að landað verði úr skipinu á morgun án þess að sótthreinsun á skipinu hafi farið fram.“