Skipverjar á Múlabergi SI 22 drógu upp minjar af gömlu skipi þegar það var við rannsóknarveiðar í Fáskrúðsfirði. Þegar mbl.is náði tali af Finni Sigurbjörnssyni, skipstjóra á Múlabergi, voru þrír starfsmenn frá Minjastofnun um borð í skipinu. Þeir komu um borð eftir að skipið landaði í Hafnarfjarðarhöfn í dag.
„Þetta er eitthvert timbur og ef miðað er við festingarnar gæti ég helst trúað því að þetta sé af einhverri franskri skútu,“ segir Finnur Sigurbjörnsson, skipstjóri á Múlabergi.
Að sögn Finns er þetta síður en svo í fyrsta skipti sem hann dregur gamlar minjar úr hafi. „Þetta gæti verið siglutré. Þetta er eldgamalt,“ segir Finnur.
Múlaberg er á hringferð um landið með Hafrannsóknastofnun þar sem það er við rannsóknarveiðar.
Skipin og áhafnir þeirra voru frá bæjum á norðurströnd Frakklands, allt suður á Bretagne-skaga. Flest voru skipin frá Dunkerque og Paimpol, en einnig frá St. Brieuec, Binic, Gravelines, Fécamps, Calais og St. Malo svo nefndir séu nokkrir helstu útgerðarstaðanna.
Frakkar völdu Fáskrúðsfjörð sem bækistöð austanlands, enda er hann rúmur og djúpur og liggur vel að miðum. Fáskrúðsfjörður og Gravelines eru vinabæir og það er orðinn siður á Fáskrúðsfirði að minnast tengslanna við Frakka sumar hvert og halda þá bæjarhátíð, Franska daga, og draga fána að hún á þjóðhátíðardegi Frakka, 14. júlí. Götur í bænum eru merktar á frönsku, jafnframt íslensku heitunum. Í ráði er að auka tengslin við Frakkland enn frekar á næstunni. Frönskum gestum í bænum fer fjölgandi og þeir gleðjast þá með heimamönnum og vitja þar minja sem þeim tengjast,“ segir á vefnum.