Baader og Skaginn 3X hafa sent frá sér tilkynningu um kaup Baader á meirihluta í Skaganum 3X. Viðskiptin eru háð venjubundnum fyrirvörum um samþykki opinberra aðila. Ráðgert er að þeim fyrirvörum verði aflétt í ársbyrjun 2021.
„Samstarf þetta er okkur mikið gleðiefni og ánægjulegt að geta í sameiningu boðið viðskiptavinum okkar heildstætt vöruframboð af framúrskarandi lausnum við vinnslu sjávarafurða“ segir Petra Baader, forstjóri Baader í tilkynningu.
„Með því að samtvinna áratuga sköpun, þekkingu og reynslu Baader við okkar sérþekkingu byggða á samstarfi og nálægð við öflugan sjávarútveg munum við efla þróun og nýsköpun til muna“ segir Ingólfur Árnason, forstjóri Skagans 3X í tillkynningu.
Ingólfur Árnason mun áfram gegna starfi forstjóra Skagans 3X og mun njóta liðsinnis núverandi stjórnendateymis fyrirtækisins. Að uppfylltum fyrirvörum samningsins mun sölu- og markaðsstarf Skagans 3X verða samþætt hinu öfluga og víðfeðma sölukerfi Baader.
„Þar til fyrirvörum samnings verður aflétt mun núverandi starfsemi fyrirtækjanna haldast óbreytt,“ segir í tilkynningu.
Baader er þýskt stórfyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð matvinnsluvéla. Skaginn 3x er matvælavinnslufyrirtæki.
„Í morgun var tilkynnt í fjölmiðlum að fyrirtækið Skaginn 3X og stórfyrirtækið Baader hafi ákveðið að sameina krafta sína á næsta ári, með fyrirvara um samþykki þar til bærra eftirlitsstofnana.
Um afar ánægjulegar fréttir er að ræða, ekki síst á þeim sérstöku tímum sem nú blasa við í íslensku samfélagi og heimsbyggðinni allri.
Skaginn 3X er með starfsstöðvar bæði á Akranesi og Ísafirði. Á sameiginlegum fundi í gærkvöldi fengu bæjarfulltrúar sérstaka kynningu á þessum áformum frá Ingólfi Árnasyni forstjóra Skagans 3X og nokkrum lykilstarfsmönnum.
Ljóst er að í samrekstri Skagans 3X og Baader felast mikil tækifæri til að vaxtar með aukinni framleiðslu afurða fyrirtækisins og sölu þeirra. Þá er ljóst að einnig felast í þessu tækifæri til að stórefla rannsókna og þróunarstarf til hagsbóta fyrir starfsfólk og íslenskt samfélag.
Einhugur er meðal bæjarfulltrúa um að fylgja fyrirtækjunum í þessari vegferð enda er fyrirtækið Skaginn 3X með sterkar rætur í báðum bæjarfélögum.
Ástæða er til að fagna þessum tímamótum og óska fyrirtækinu og bæjarbúum til hamingju með áfangann og þessi merku tíðindi,“ segir í tilkynningu.