Að óbreyttu fellur MSC-vottun á norsk-íslenskri síld og kolmunna úr gildi á næstunni, en í byrjun síðasta árs missti makríll þessa vottun. Meginástæða þessa er að kröfur um úrbætur í vottuninni hafa ekki verið uppfylltar þar sem veiðar hafa verið umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES. Ekki eru í gildi heildarsamningar um stjórnun veiða á deilistofnum í NA-Atlantshafi.
Gísli Gíslason, svæðisstjóri Marine Stewardship Council (MSC) fyrir Ísland, Færeyjar og Grænland, segir það dapurlegt að þessi staða sé komin upp og þjóðirnar skuli ekki geta komið sér saman og tryggt að heildarveiði sé í samræmi við ráðgjöf. Um sé að ræða ríkar þjóðir á heimsmælikvarða, þróaðar fiskveiðar og stöndugar útgerðir. Ísland var með eitt hæsta ef ekki hæsta hlutfall af lönduðum afla vottað í MSC-kerfinu eða um 97% fyrir afturköllun á makrílvottuninni, samkvæmt útreikningum Iceland Sustainable Fisheries.
Hann segir að síðustu ár hafi hrygningastofnar makríls, norsk-íslenskrar síldar og kolmunna minnkað, sem endurspegli veiðar umfram ráðgjöf. Í MSC-kerfinu þurfi þjóðir að standast lágmarkseinkunn en oftar en ekki þarf að gera frekari umbætur til að veiðarnar viðhaldi vottun. Á meðal skilyrða í þessu tilviki sé að fiskveiðiþjóðir viðhafi stjórnunaraðgerðir sem tryggi að heildarafli tryggi sjálfbærni fiskstofnanna. Ríkin sem einkum veiða fyrrnefndar tegundir við norðanvert Atlantshaf eru Evrópusambandið, Bretland, Noregur, Færeyjar, Ísland, Rússland og Grænland. Stjórnun veiðanna hefur verið rædd á fjarfundum síðustu daga.
Gísli segir að kröfur frá neytendum hafi síðustu ár gert vottun nauðsynlegri en áður og stórmarkaðir geri margir vaxandi kröfu um vottun. Umhverfisvitund almennings hafi vaxið og kröfur aukist um ábyrgð og sjálfbærni. Þannig veiti vottun greiðari aðgang að mörkuðum.
Hann segir að umhverfissamtök hafi sent erindi á stjórnvöld í strandríkjunum vegna veiða á síld, kolmunna og makríl. Einnig samtök í smásölu í Evrópu og eins fyrirtæki. Þá hafa ný samtök North Atlantic Pelagic Advocacy (NAPA) hvatt til lausnar. Þau samtök eru upprunnin í Bretlandi en óska eftir aðild og stuðningi frá öðrum löndum.
Spurður um áhrif þess að veiðar á tilteknum tegundum missi vottun segir Gísli að það geti verið misjafnt eftir markaðslöndum. Mest verði trúlega áhrifin í Vestur-Evrópu.
Vottunarstofur hafa birt erindi þess efnis að 30. nóvember verði tilkynnt um að veiðar á norsk-íslenskri síld og kolmunna missi vottunarskírteini 30 dögum síðar, það er um næstu áramót. Handhafar vottunarskírteinis hafa síðan tíma til loka febrúar til að tilkynna um áætlun um úrbætur sem vottunarstofa getur metið fullnægjandi. Verði það ekki gert þarf að byrja frá grunni til að afla vottunarskírteinis að nýju.
Marine Stewardship Council er sjálfseignarstofnun með höfuðstöðvar í London og er MSC-staðallinn alþjóðlegur. Í hverju landi halda samtök í sjávarútvegi utan um MSC-fiskveiðivottanir og hér á landi er það Iceland Sustainable Fisheries (www.isf.is). Þar eru tæplega 60 aðildarfyrirtæki, en alls hafa 190 starfsstöðvar á Íslandi, vinnslur og sölufyrirtæki hafa vottun samkvæmt MSC-rekjanleikastaðlinum. Faggiltar vottunarstofur sjá síðan um úttektir bæði á fiskveiði- og rekjanleikavottun.
Grásleppa frá Íslandi missti MSC-vottun í ársbyrjun 2018 vegna meðafla við veiðarnar, en nú er útlit fyrir að grásleppan verði endurvottuð í næsta mánuði. Gísli segir að þetta skipti miklu máli fyrir greinina og markaðurinn taki þessu fagnandi. Stór hluti afurða fer til Skandinavíu, Þýskalands og Frakklands.
Íslendingar voru fyrstir til að fá MSC-vottun á grásleppuveiðar, en Grænlendingar og Norðmenn fylgdu í kjölfarið. Þá var um 95% af því sem veitt var af grásleppu í heiminum með MSC-vottun. Í kjölfar afturköllunarinnar lækkaði verð á grásleppuhrognum samanborið við samkeppnislöndin. Nú hefur verið brugðist við athugasemdum meðal annars með lokunum á tilteknum svæðum í samráði við sjómenn og stefnir í að vottun á grásleppu við Ísland ljúki í næsta mánuði.