„Draumur trillukarlsins að geta lifað af þessu“

Georg Eiður Arnarson er Eyjamaður, trillu- og lundakarl og hefur …
Georg Eiður Arnarson er Eyjamaður, trillu- og lundakarl og hefur marga fjöruna sopið á langri útgerðarsögu. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Georg Eiður Arnarson er Eyjamaður, trillu- og lundakarl og hefur marga fjöruna sopið á langri útgerðarsögu. Komist í hann krappan oftar en einu sinni. Misst báta, bæði í sjóinn og til bankans en alltaf staðið upp aftur og er enn að. Sækir í það sem náttúran gefur en er um leið náttúrverndarsinni án þess kannski að hafa hugmynd um það. Hefur skoðun á hlutunum og bendir óhikað á þegar honum finnst ekki rétt að farið. En umfram allt er Georg Eiður skemmtilegur karl og bara sáttur við Guð og menn þegar upp er staðið.

Hann er fæddur 1964 og byrjaði snemma á sjó. „Ég var tólf ára þegar ég fór einn túr í starfskynningu á Dala-Rafni VE með skólabróður mínum þá, Engilbert Eiðssyni, sem fór niður með Hellisey VE 1984. Var mikið sjóveikur, ældi eins og múkki frá því við fórum þar til við komum í land. Ég held ég hafi ælt daginn eftir líka,“ segir Georg sem reyndi fyrir sér á togara rúmlega tvítugur. Leist ekki á enda hluturinn ekki hár. „Það er annað í dag,“ segir Georg sem stuttu seinna kaupir fyrstu trilluna.

Fyrstu skrefin í útgerðinni

Hún hét Kópur, eitt og hálft tonn og stýrishúsið ekki stærra en svo að hann horfði yfir það um leið og hann stýrði en stýrið var úti. Þetta var haustið 1987. Það er svo á fyrstu vertíðinni, 1988, að hann fær eldskírnina sem trillusjómaður. „Ég fer á sjó með tvær tölvuvindur og er kominn inn á Danska hraun. Er að fara að ýta á start þegar komin er nokkur alda en alveg logn. Áður en færin eru komin niður á 30 metrana er skyndilega kominn 20 metra stormur. Á þessu horni sigldi ég í land, allt á hlið og þegar ég kom í Faxa gengu öldurnar yfir hann öðrum megin og upp úr honum hinum megin. Maður réð ekki við eitt eða neitt enda var þetta algjört horn en kom manni þó í land.“

Svavar Þór, sonur Georgs, með vænan þorsk. Ekki duga vettlingatökin.
Svavar Þór, sonur Georgs, með vænan þorsk. Ekki duga vettlingatökin. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Næst kaupir Georg afturbyggðan trébát sem er ennþá við Klettsnefið við innsiglinguna til Vestmannaeyja. „Um miðjan desember 1989 fer ég hérna vestur fyrir með línu. Það skellur á austan rok og þegar ég kem til baka eru skaflarnir við Klettinn. Þetta var eldgamall trébátur, opinn og framþungur og á fyrstu öldu flaut yfir. Ég var heppinn, náði að snúa við, og komast í var norðan við Heimaklett og lagði bátnum á bóli. Það var algjörlega ófært fyrir mig að ætla að komast til hafnar og Rabbi á Kirkjubæ náði í mig og fór með mig í land.“

Ætlunin var að ná í bátinn daginn eftir en óveðrið hélst í þrjá daga. „Við fundum aldrei bátinn þannig að hann er þarna einhvers staðar á bóli,“ segir Georg og glottir.

Ruglið byrjaði með Valdimarsdómnum

Á þessum bát byrjaði Georg að stunda línuveiðar og líkaði það betur en handfærin. „Á þessum tíma er þorskurinn kominn í kvóta en þú máttir veiða frjálst í öðrum tegundum. Löngu, ýsu, karfa og fleiri tegundunum. Eftir Valdimarsdóminn 1998 var allt sett í kvóta. Þá leist manni ekkert á þetta og þarna byrjaði ruglið og braskið sem er búið að vera síðustu 20 árin. Á síðustu fimm árum höfum við séð tegundir sem settar voru í kvóta fara niður á við,“ segir Georg á þar við litla karfa, gulllax, blálöngu og hlýra.

Hann er líka mjög efins um aðferðir Hafró þegar kemur að mælingum á stærð einstakra fisktegunda og nefnir keiluna, sem hann þekkir flestum betur. „Ég hafði samband við Hafró og vildi fá að heyra hvað væri í gangi með keiluna. Þá fékk ég að vita, það sem ég hafði heyrt áður, að þeir miða stöðu stofnsins við hvað fæst á einhvern línuspotta hjá Vísisbátunum í Grindavík. Sem eins og flestir vita fékk meira en helminginn af keilukvótanum. Nú er keilukvótinn í sögulegu lágmarki, 1.300 tonn en fyrir kvótasetningu var veiðin 10.000 tonn á Íslandsmiðum. Málið er að það er nóg af keilu og það væri hægt að veiða allan kvótann hér á Drangasvæðinu,“ segir Georg sem seiglaðist þrátt fyrir að vera með vindinn í fangið.

Hættir og hættir við að hætta

„Já. Ég lenti í vandræðum og missti bát á uppboð. Ætlaði að hætta en þetta er baktería sem maður er með. Líka mikið veiðieðli og langaði að halda áfram.“

Það var einmitt það sem hann gerði, kaupir bát, ætlaði að hætta, kaupir bát, selur og kaupir og er heppinn og óheppinn. Alls urðu bátarnir níu og fljótlega fá þeir Blíðunafnið sem Georg er oft kenndur við. Það var svo árið 2016 sem hann ætlar að slá lokatóninn í útgerð. Báturinn sem hann átti þá reyndist illa og hafði kostað hann minnst 15 milljónir króna.

Þeir fengu gott af skötu í róðrinum sem kemur sér …
Þeir fengu gott af skötu í róðrinum sem kemur sér vel nú þegar styttist í Þorláksmessuna. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta ár byrjaði ég hjá Vestmannaeyjahöfn og fór í mjaðmakúluskipti. Árið eftir næ ég að selja bátinn. Var sáttur við að vera alveg hættur en til að friða bakteríuna kaupi ég mér litla tuðru. Var að þvælast út með litla stöng til að leika mér en fann fljótlega að það var ekki alveg nóg. Það var mikið að gera í vinnunni þannig að maður pældi ekki svo mikið í bátakaupum. Um jólin 2018 er okkur kynnt nýtt vaktafyrirkomulag sem þýddi fleiri frídaga, 11 daga á fimm vikum fyrir utan helgarfrí. Í allt 110 daga fyrir utan sumar- og vetrarfrí. Búinn að selja allt sem tengdist útgerðinni og átti kannski fyrir litlum bíl.“

Bakreikningur frá ríkinu

Þarna er Georg nokkuð sáttur við lífið, skuldlaus að hann hélt. „En þá kemur þessi helvítis, ég segi helvítis samsköttun hjóna. Konan mín er öryrki og við þurftum að greiða bæturnar tvö ár aftur í tímann. Þarna stöndum við frammi fyrir því að vera í mínus. Breytingin hjá höfninni og samsköttunin verður til þess að ég kaupi þennan litla bát í febrúar í fyrra. Hann var í slæmu ástandi og kostaði mikla vinnu, tíma og peninga að laga hann. Hann skilaði þó því að ég tók 85 tonn upp úr sjó til loka fiskveiðiársins og um tólf tonn í september. Ég ákvað að gefa þessu séns í tvö ár og það hefur gengið vel. Ber hann Blíðunafnið með reisn.“

Georg þótt vænt um þegar hann fékk símtal að vestan, frá Kristjáni Andra Guðjónssyni á Ísafirði sem smíðaði bátinn með föður sínum. „Pabbi hans var Guðjón Arnar, fyrrum þingmaður og skipstjóri, sem ég þekkti vel. Þeir græjuðu hann með vélinni sem er í honum. Þetta þótti mér skemmtilegt og ekki verra að það hefur gengið ágætlega á þessum bát.“

Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Þegar Georg er spurður um vinnufyrirkomulagið hjá sér í dag segist hann bara vinna átta til níu tíma á dag sem flestum þætti nóg. „Í dag byrjaði ég klukkan átta í morgun og var búinn klukkan hálffjögur. Þá fór ég að beita. Til að ofkeyra mig ekki beiti ég fram að kvöldmat og þá er ég hættur. Maður gæti verið að allan sólarhringinn en þá brynni maður strax út. Ég legg þetta upp þannig að ég beiti eftir vinnu ef ég á frí. Beiti tvö eða þrjú bjóð ef ég er stuði. Ræ svo þegar ég á frí.“

Á föstudegi eftir að viðtalið var tekið lagði hann í hörmungarveðri. „Norðan 19 á Höfðanum þegar ég keyrði inn eftir. Báturinn er rétt fimm tonn. Með góða peru, dekkaður og ver sig lygilega vel og gengur ekki nema sex mílur að hámarki. Þannig að maður lufsaðist þetta inn eftir. Fer niður í tvær mílur við verstu skilyrði en skilar manni í land þó það taki tíma.“

Erfitt að vera á leigumarkaði

Georg á engan kvóta og þarf því að leigja til sín fisk sem kostar sitt og ofan á það bætast veiðigjöldin. „Þetta var ekki góð sending en það sem hjálpar mér er að ég komst á samning við fyrirtæki á Suðurnesjum sem kaupir af mér þorsk, ýsu og löngu á föstu verði. Þannig losna ég við sveiflur á markaðnum hérna. Með þessu veit maður hvað fiskurinn sem maður leigir má kosta og hef ég ágætar tekjur út úr þessu. Það eru þó blikur á lofti því Hafró hefur ákveðið að skera niður kvóta í löngu sem kemur illa við mig. Líka að kvótaleiga á þorski er að nálgast 230 krónur fyrir kílóið. Sá sem leigir frá sér borgar engin veiðigjöld, en leigutakinn þarf að borga ofan á þessar 230 krónur liðlega 13 krónur til ríkisins í formi veiðigjalda.“

Hann bendir á þversögnina með lönguna því um miðjan júlí var veiði á löngu komin í 100% samkvæmt úthlutuðum kvóta en tala um veiðina hélt áfram að hækka. „Ég les 200 mílur á Mbl.is á hverjum degi þar sem er að finna allt um sjávarútveg. Á síðunni er dálkur, gangur veiða. Þar sést hvað búið er að veiða mikið af hverri tegund í prósentum. Um miðjan júlí stóð við lönguna 100% og einn og hálfur mánuður eftir af fiskveiðiárinu. En áfram hækkar talan, prósentan var óbreytt og þannig var það í sex vikur. Þrátt fyrir þetta minnka þeir kvótann um 16% vegna þess að þeim finnst eitthvað sem stenst enga skoðun,“ segir hann og dæsir við.

„Draumur trillukarlsins er að geta lifað af þessu en á bak við er kvótakerfið og bankinn sem gera þetta erfitt. Þrátt fyrir allt þetta hef ég gaman af þessu, sem heldur manni gangandi,“ segir Georg sem á sér fleiri hliðar, var í framboði fyrir Frjálslynda á sínum tíma og það væri efni í annað viðtal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 3.1.25 547,28 kr/kg
Þorskur, slægður 3.1.25 680,92 kr/kg
Ýsa, óslægð 3.1.25 432,52 kr/kg
Ýsa, slægð 3.1.25 386,00 kr/kg
Ufsi, óslægður 3.1.25 152,07 kr/kg
Ufsi, slægður 3.1.25 224,68 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 3.1.25 324,99 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

4.1.25 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Ýsa 7.302 kg
Þorskur 2.233 kg
Steinbítur 340 kg
Langa 32 kg
Samtals 9.907 kg
4.1.25 Tryggvi Eðvarðs SH 2 Lína
Ýsa 813 kg
Þorskur 259 kg
Steinbítur 31 kg
Hlýri 25 kg
Samtals 1.128 kg
4.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Þorskur 434 kg
Keila 34 kg
Hlýri 22 kg
Ýsa 16 kg
Samtals 506 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 3.1.25 547,28 kr/kg
Þorskur, slægður 3.1.25 680,92 kr/kg
Ýsa, óslægð 3.1.25 432,52 kr/kg
Ýsa, slægð 3.1.25 386,00 kr/kg
Ufsi, óslægður 3.1.25 152,07 kr/kg
Ufsi, slægður 3.1.25 224,68 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 3.1.25 324,99 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

4.1.25 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Ýsa 7.302 kg
Þorskur 2.233 kg
Steinbítur 340 kg
Langa 32 kg
Samtals 9.907 kg
4.1.25 Tryggvi Eðvarðs SH 2 Lína
Ýsa 813 kg
Þorskur 259 kg
Steinbítur 31 kg
Hlýri 25 kg
Samtals 1.128 kg
4.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Þorskur 434 kg
Keila 34 kg
Hlýri 22 kg
Ýsa 16 kg
Samtals 506 kg

Skoða allar landanir »

Loka