Í gegnum rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins (Horizon 2020) hefur Hafrannsóknastofnun fengið rúmlega 433 milljónir króna í styrki á undanförnum þremur árum, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar.
Þar segir að Hafrannsóknastofnun hafi „lagt aukna áherslu á alþjóðlegt rannsóknasamstarf á síðustu árum með umsóknum í samkeppnissjóði sem hafa skilað góðum árangri.“ Þá taka starfsmenn stofnunarinnar nú þátt í 11 alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem hlotið hafa styrk úr Horizon 2020 en að þessum verkefnum vinnur fjöldi vísindafólks víðs vegar í Evrópu frá meira en 200 rannsóknastofnunum og fyrirtækjum.
Fjölbreytt verkefni
Meðal þeirra verkefna sem Hafrannsóknastofnun kemur að er MEESO-verkefnið þar sem ætlunin er að rannsaka vistkerfi miðsjávarlaga sem er á 100 til 1000 metra dýpi. Fram kemur í tilkynningunni að „meginmarkmið verkefnisins er að auka þekkingu á magni, dreifingu, tegundasamsetningu, framleiðni og nýtingarmöguleikum lykiltegunda í miðsjávarlögunum, og hlutverki þeirra í kolefnisbúskap hafsins.“
Þetta tiltekna verkefni skoðar ekki aðeins fiska heldur nær það einnig til hryggleysinga, „enda er talið að magn þeirra í miðsjávarlögunum sé umtalsvert, jafnvel af sömu stærðargráðu og fiska.“ MEESO verkefnið hefur verið styrkt um rúmar 117 milljónir króna.
Annað verkefni sem unnið er að er nefnt ECOTIP og er það sagt til þess fallið að „bæta skilning okkar á orsökum, þolmörkum og afleiðingum af keðjuverkunum sem verða í vistkerfinu þegar farið er yfir þolmörk þess og áhrifum þeirra á líffræðilegan fjölbreytileika í Norðurhöfum. Verkefnið mun fella líffræðilegar athuganir inn í nálgun að líffræðilegum fjölbreytileika sjávar sem byggir á eiginleikum lífvera og nota þá nálgun til að tengja breytingar á samfélögum lífvera við virkni vistkerfa. Verkefnið mun einnig kortleggja líffræðilegan fjölbreytileika á norðurslóðum í fortíð og nútíð, ásamt viðbrögðum hans við ytri skilyrðum.“
Fram kemur í tilkynningunni að markmið Horizon 2020 er að styðja við rannsóknir og nýsköpun á öllum fræðasviðum með það að markmiði að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og stuðla að því að fleiri góðar hugmyndir komist á markað.