„Þetta gæti verið lítið skref í átt að því að stuðla að meiri sátt í samfélaginu um fiskveiðistjórnunarkerfið,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, um frumvarp sem snýr að breytingu á lögum um stjórnun fiskveiða. Páll stendur að baki frumvarpinu en það var tekið til skráningar á Alþingi í gær. Markmiðið með frumvarpinu er að kveða afdráttarlaust á um að þegar einstakur aðili kaupir hlut í öðru útgerðarfyrirtæki sem á fiskiskip með aflahlutdeild, hvort sem keyptur er minni hluti eða meiri hluti, leggist það hlutfall aflaheimilda sem því fylgir, við það sem fyrir var í eigu kaupanda.
Í núgildandi lögum miðast hámark aflaheimilda við 12%. Kaupi sjávarútvegsfyrirtæki hins vegar í öðru félagi, sem sömuleiðis á aflaheimildir, bætist það ekki við aflahlutdeildina. Aðspurður segist Páll vilja skerpa á þessu í lögum.„Eins og lögin eru núna þá gæti eitt sjávarútvegsfyrirtæki fræðilega keypt 49% hlut í öllum hinum fyrirtækjunum. Þar sem þetta er ekki meirihluti telst hlutdeild þeirra fyrirtækja ekki með í aflaheimildum kaupandans. Fyrirtækið væri jafnframt að vinna í samræmi við núgildandi lög.
Ég ákvað því að leggja frumvarpið fram og tryggja þannig með afdráttarlausum hætti að þetta 12% þak haldi,“ segir Páll og bætir við að með þessu sé ekki verið að ganga lengra en í núgildandi lögum. „Mín sannfæring er sú að við eigum ekki að ganga lengra í samþjöppun aflaheimilda en 12% regla fiskveiðistjórnunarlaga kveður á um. Ég lít á þetta sem gloppu sem þarf að laga.“
Skipting aflaheimilda og stjórnun fiskveiða hefur verið þrætuepli stjórnmálaflokka í mörg ár. Páll segist vilja stuðla að aukinni sátt um málaflokkinn. „Það getur verið að þetta stuðli að aukinni sátt. Með þessu erum við að sýna að pólitíkin er á vaktinni gagnvart samþjöppun í sjávarútvegi, eða alla vega meiri samþjöppun en lögin gera ráð fyrir. Mér finnst það bara vera gloppa að þú getir eignast 49% í félaginu án þess að nokkuð af aflaheimildum þess teljist til þinna. Að mínu mati á þetta bara að vera hlutfallslegt,“ segir Páll og bætir við að hann vonist til að frumvarpið njóti stuðnings. „Ég veit að allmargir þingmenn flokksins styðja efnisatriði málsins. Ég kaus hins vegar að leggja þetta frumvarp fram einn og var ekki að reyna að safna öðrum þingmönnum inn á það. Það verður síðan bara að koma í ljós hvaða hljómgrunn það fær, en ég hef mikla sannfæringu fyrir því að þetta sé brýn bót á fiskveiðistjórnunarlögunum.“
Spurður hvort til greina komi að leggja fram fleiri tillögur um breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum segir Páll það koma til greina. Þó sé hann í öllum megindráttum sáttur við núverandi kerfi. „Ég hef verið í sókn og vörn fyrir fiskveiðistjórnunarkerfið lengi. Ég tel, í öllum aðalatriðum, að við séum með besta og arðsamasta sjávarútveg í heimi. Þetta frumvarp gæti hins vegar stuðlað að frekari sátt um kerfið í heild.“