Útköllum sjóbjörgunarsveita fækkaði nokkuð milli ára og má meðal annars rekja þá þróun til færri ferðamanna. Verkefnin voru þó næg hjá björgunarsveitarmönnum.
„Fjöldi útkalla er svipaður og í fyrra. Þeim hefur fækkað meira hjá stóru björgunarskipunum okkar, sem er að einhverju leyti alveg klárlega tengt kórónuveirufaraldrinum. Það voru 53 útköll á stóru skipunum sem er nokkuð undir meðaltali fyrri ára,“ segir Örn Smárason, verkefnastjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörg.
Hann segir að þessa breytingu megi meðal annars rekja til þess að ferðamönnum hafi fækkað mikið. „Björgunarskipið á Ísafirði hefur mikið verið að sinna sjúkraflutningum af skemmtiferðaskipum og eins leit og björgun í Hornstrandafriðlandinu, þeir fara úr næstum þrjátíu útköllum í fyrra niður í níu. Þrátt fyrir að útköllin [á landsvísu] séu enn nokkuð mörg þá erum við ánægð með að alvarleiki útkallanna hefur verið eilítið minni í ár en í fyrra.“
Örn segir alveg ljóst að af öllum verkefnum ársins standi upp úr umfangsmikil leit að skipverja sem féll útbyrðis 18. maí þegar fiskiskipið sem hann var á var á leið til hafnar á Vopnafirði.
„Það fór gríðarlega mikill tími í skipulag á leitinni og tóku þátt þrjú stór björgunarskip og átta minni bjargir í leit í um þrjá daga. Þetta var skelfilegur atburður og flókið verkefni, kallaði á mikinn mannafla. Sennilega voru um 90 manns í verkefninu að leita á sjó og á landi á sama tíma þegar mest lét.“
Í aðgerðunum komu við sögu björgunarbátar og -skip, drónar, flugvél Landhelgisgæslunnar og neðansjávardróni. Fjörur voru gengnar beggja vegna fjarðarins og svæði tvíleituð. Allt kom þó fyrir ekki og tilkynnti lögreglan á Austurlandi 25. maí að skipulagðri leit væri hætt án þess að skipverjinn kæmi í leitirnar.
Þá er einnig tilefni til að minnast á að björgunarskip hafi verið á Flateyri frá því að snjóflóðin féllu í janúar og langt fram á sumar í þeim tilgangi að tryggja Flateyringum varaleið frá þorpinu, segir Örn.
Kórónuveirufaraldurinn truflaði sem betur fer ekki björgunargetu félagsins á árinu, að sögn Arnar. „Við erum búin að vera með hugann mikið við þetta og fórum strax mjög skilvirkt í það að koma til okkar fólks leiðbeiningum um búnað og persónuvarnir. Í sjóbjörgun hefur blessunarlega lítið reynt á þetta en menn hafa nýtt hanska og grímur. Sem betur fer hafa sjúkraflutningar á sjó hitt einmitt á þann tíma sem eru lægðir í faraldrinum, en mest var af þeim í sumar. Við höfum verið mjög heppin hvað þetta varðar og sem betur fer ekki þurft að fara í nein Covid-tengd verkefni.“
Hann segir hins vegar að kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á allt félagsstarf og æfingar. „Það er auðvitað bagalegt, en menn eru hringinn um landið að einbeita sér að því að halda sér útkallshæfum og draga því mikið úr innra starfi, æfingum og öðru slíku. Þó svo að við munum ná okkur aftur á strik er ekki gott að geta ekki haldið öllu við eins og venjulega.“
Þá segir hann að helstu verkefni næsta árs verði áætluð endurskoðun á námsefni félagsins auk þess sem mikilvægt sé að leggja áherslu á slysavarnir sjómanna og minna á neyðarrásina.
Stefnt hefur verið að umfangsmikilli endurnýjun björgunarflota félagsins. Spurður hvort faraldurinn hafi haft áhrif á þau áform, svarar Örn: „Í sannleika sagt þá óttuðumst við í mars að þurfa að gera algjört hlé á því verkefni og bjuggum okkur undir það. En í sumar ákvað ríkisstjórnin að aðstoða okkur við að endurnýja þrjú af þrettán stóru björgunarskipunum. Það er vissulega minna en við vonuðum en við erum mjög fegin yfir þeim stuðningi sem þó er og nú er verið að ljúka við útboðsgögn vegna útboðs sem fer í gang strax á næsta ári.“