Illa hefur gengið að koma í veg fyrir að hlýri sé veiddur umfram útgefið aflamark og hefur verið veitt heimild til að sleppa honum þegar hann veiðist sem meðafli umfram kvóta. Staða stofnsins við Ísland í sögulegu lágmarki, en hlýrastofninn verið á undanhaldi allt frá árinu 1996, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.
„Hlýri var settur í aflamarkskerfið fyrir nokkrum árum, en sjómönnum hefur gengið illa að veiða ekki umfram kvóta m.a. vegna þess að hlýri veiðist almennt sem meðafli,“ segir á vef stofnunarinnar.
Á sérstökum fundi sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og útgerðaraðila að leita heimilda til að sleppa hlýra sem veiðist. Sú heimild var veitt og tók gildi 14. desember. „Vonast er til með þessari heimild, að sjómenn sleppi þeim hlýra sem þeir veiða umfram kvóta og það dugi til að bæta stöðu stofnsins.“
Fram kemur að umræður hafi skapast um lífslíkur hlýra eftir að hann er veiddur og síðan sleppt. Á grundvelli athugana er talið að lífslíkurnar séu talsverðar eftir botnvörpuveiðar. „Frumathugun hjá Hafrannsóknastofnun sýndi að hlýri sem veiddur var í botnvörpu virtist þola 1-2 tíma í móttöku eða á færibandi áður en honum var sleppt, en til stendur að rannsaka þetta nánar á næsta ári.“
Ekki eru til rannsóknir á lífslíkum hlýra eftir línuveiðar og hefur Hafrannsóknastofnun rannsakað á þessu ári, í samstarfi við áhöfn Sighvats GK, lífslíkur hlýra eftir línuveiðar. Stefnt er að frekari rannsóknum á næsta ári en vísbendingar eru um að lífslíkur hlýra sem veiddur er á línu séu einnig talsverðar.
Rannsóknin fór þannig fram að á lokadegi í hverri veiðiferð safnaði áhöfnin á Sighvati GK „annars vegar fimm hlýrum sem fóru hefðbundna leið í gegnum slítara og hins vegar fimm sem leystir voru af króknum með handafli. Þeim var síðan komið fyrir í kari með rennandi sjó og var landað á Siglufirði þar sem starfsmenn Hafrannsóknastofnunar tóku við þeim.“
Þá var hlýrinn settur í krabbagildrur á rannsóknastofu sem komið hefur verið upp á Hjalteyri og gildrurnar síðan komið fyrir á hafsbotni. Í kjölfarið var fylgst með hlýrunum næstu fjóra sólarhringa og að því loknu var þeim sem lifðu af, sleppt aftur í hafið.