Loðnuleiðangri fimm skipa hefur verið lokið og eru öll skipin komin til hafnar. Niðurstöður munu liggja fyrir síðar í þessari viku en markmið leiðangursins var að mæla stærð hrygningarstofns loðnu.
Skipin fundu loðnu með landgrunnskantinum norðan Íslands allt austur að Langanesdýpi, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar. Þar segir jafnframt að „ekkert var að sjá á grunnum né með kantinum austan lands. Að megninu til fékkst hrygningarloðna í togsýnum.“
Hafísinn sem hefur verið um tíma á Grænlandssundi hafði veruleg áhrif á mælingu, sérstaklega á leitarsvæðinu norðvestur af Vestfjörðum. Kom hafísinn í veg fyrir að rannsóknaskipið Árni Friðriksson gæti stundað mælingar við og utan við landgrunnsbrúnina á Vestfjarðamiðum, en á þessum slóðum varð vart við loðnu í síðasta mánuði.
Ísinn truflaði einnig mælingar Bjarna Sæmundssonar að hluta er hann var norður af Vestfjörðum, mælingar skipsins gengu að öðru leyti með ágætum.
Skilyrði betri í næstu viku
Hafrannsóknastofnun kveðst stefna að því að endurtaka mælingar þegar aðstæður verða hagstæðar með tilliti til hafíss og veðurs. „Rannsóknaskipin verða tilbúin í verkefnið en ekki hefur verið ákveðið hvernig þátttöku annarra skipa verður háttað. Miðað við veðurspár og núverandi útbreiðslu hafíss verða góðar aðstæður til mælinga í fyrsta lagi seinni part viku.“
Skipin sem tóku þátt í leiðangrinum auk rannsóknaskipanna tveggja voru Ásgrímur Halldórsson SD, Aðalsteinn Jónsson SU og Polar Amaroq.
Skipin eru öll komin til hafnar.
Skjáskot