Íslensku fiskeldisfyrirtækin framleiddu liðlega 34 þúsund tonn af laxi á nýliðnu ári sem er meira en sjö þúsund tonnum meira en árið á undan. Aukningin nemur 27% en þar sem samdráttur varð í framleiðslu á bleikju og senegalflúru vegna kórónuveirufaraldursins jókst heildarframleiðsla í fiskeldi minna, eða um 20% milli ára. Útlit er fyrir að framleiðsla á laxi brjóti 40 þúsund tonna múrinn á árinu 2021.
Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á markaði og lágs verðs fyrir jólin frestuðu Laxar fiskeldi og ef til vill fleiri framleiðendur slátrun á laxi og koma þær afurðir upp úr kvíunum í ár og teljast til framleiðslu ársins 2021. Framleiðslan hefði því orðið meiri en þó varð, ef ekki hefði komið til þess.
Megnið af laxaframleiðslunni kemur úr sjókvíum, eða 94%. Arnarlax er sem fyrr langstærsti framleiðandinn en Arctic Fisk sækir á. Meginhluti aukningarinnar varð því á Vestfjörðum. Austfirsku sjókvíaeldisfyrirtækin tvö, Laxar fiskeldi og Fiskeldi Austfjarða, eru einnig að auka sína framleiðslu hægt og bítandi.
Eldi á bleikju hér á landi hefur farið hægt vaxandi í mörg ár. Breyting varð á því á síðasta ári. Jafnt stórir sem litlir framleiðendur hafa markvisst haldið að sér höndum á árinu vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á markaði, bæði hér heima og erlendis. Margir litlir og meðalstórir framleiðendur bleikju finna fyrir samdrætti í komu ferðamanna þar sem bleikjan hefur verið vinsæll réttur á hótelum og veitingastöðum. Þá er snúnara að koma bleikjunni á erlenda markaði. Laxamarkaðurinn virðist opnari og skilvirkari þótt vissulega hafi afurðaverðið lækkað.
Samdráttur var í framleiðslu á senegalflúru af sömu ástæðum og í bleikju. Enginn eldisþorskur var framleiddur á síðasta ári en sú grein hefur fjarað út á síðstu sex til sjö árum.
Aftur á móti er framleiðsla á regnbogasilungi farin að aukast á ný eftir að hafa verið í lægð frá því á metárinu 2017.
Kórónuveirufaraldurinn hafði þau áhrif að heimsmarkaðsverð á laxi lækkaði á síðasta ári. „Árið fór prýðilega af stað og verðið hélst tiltölulega hátt þar til faraldurinn fór að hafa áhrif. Þeirra gætti ekki síst á veitingamörkuum sem skipta miklu máli fyrir fiskeldið,“ segir Einar K. Guðfinnsson sem starfar að fiskeldismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Hann segir að Kínamarkaður hafi lokast þegar leið á árið en þangað hafði farið töluvert af heimsframleiðslunni. Sú framleiðsla hafi í staðinn leitað til Bandaríkjanna og Evrópu. Þá hafi þrengingar í Bandaríkjunum gert það að verkum að stór framleiðslulönd, eins og til dæmis Síle, sem nýtt hafi Bandaríkin sem heimamarkað, hafi sótt inn á Evrópumarkað. Allt hafi þetta orðið til þess að verðið hafi lækkað og það hafi haft veruleg áhrif á fiskeldið.
Í nýju fréttabréfi SFS kemur fram að útlit sé fyrir að útflutningsverðmæti fiskeldisafurða hafi verið rúmir 29 milljarðar á árinu 2020 á móti nálægt 25 milljörðum á árinu á undan. Er það met. Í krónum talið er þetta 17% aukning en rúmlega 5% aukning í erlendri mynt. Þannig hefur aukin framleiðsla náð að vega upp á móti verðlækkun og vel það.
Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, og Einar K. eiga von á áframhaldandi aukningu fiskeldis á yfirstandandi ári. Gísli segir að miðað við þau seiði sem eru í eldi í sjókvíum megi búast við tæplega 40 þúsund tonna framleiðslu í ár. Sú framleiðsla sem færðist yfir áramótin nú mun ef að líkum lætur duga til að sprengja 40 þúsund tonna múrinn en Gísli tekur þó fram að allt verði að ganga upp til þess að svo verði. Þar fyrir utan koma um tvö þúsund tonn af laxi úr landeldisstöðvum.
Búast má við talsverðri aukningu í framleiðslu á regnbogasilungi því Háafell, dótturfélag HG, hefur í ár slátun úr kvíum í Ísafjarðardjúpi og kemur sú framleiðsla til viðbótar framleiðslu Hábrúnar í Skutulsfirði og Matorku í Grindavík.
Það getur tekið tíma fyrir bleikjueldið að jafna sig en það ræðst væntanlega mest af markaðsaðstæðum.