Stofnfiskur hf. hefur breytt nafni sínu og fer starfsemin nú fram undir merkjum Benchmark Genetics Iceland hf. Fram kemur í fréttatilkynningu að nafnabreytingin sé liður í því að sameina vörumerki innan móðurfélagsins Benchmark Holding plc group, en kennitala félagsins, skipulag þess og eignarhald óbreytt.
Þá segir að heitið Stofnfiskur verður áfram notað fyrir laxastofn fyrirtækisins svo og kynbótaverkefni þess á laxi sem starfrækt er á Íslandi, en Benchmark Genetics Iceland er framleiðandi á kynbættum laxahrognum til laxeldisiðnaðarins á Íslandi, í Evrópu og Síle. Það skiptir miklu máli fyrir viðskiptavini félagsins að laxastofninn haldi óbreyttu nafni, segir Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland.
Klakstöð og Hrognahús í Vogavík.
Ljósmynd/Benchmark Genetics Iceland
Stefnt að uppbyggingu
Fram undan er vaxtarskeið hjá fyrirtækinu og er stefnt að miklum fjárfestingum í uppbyggingu starfsemi félagsins á Íslandi. Þá er verið að byggja nýtt hrognahús við stöð félagsins í Vogavík sem verður tilbúin seinna á þessu ári auk þess sem unnið er að nýrri seiðastöð á sama svæði.
Fyrirtækið var stofnað 1991 og fer starfsemi fyrirtækisins fram á Suðvesturlandi, klakeldisstöðvar við Kalmanstjörn sunnan við Hafnir og í Vogum þar sem einnig hrognaframleiðsla fyrirtækisins fer fram. Seiðastöðin er staðsett í Kollafirði. Fyrirtækið framleiðir einnig hrognkelsaseiði í stöð sinni í Höfnum, sem eru notuð til að halda laxalús niðri í laxeldi í sjó.
„Núna erum við spennt að klára framkvæmdir við nýtt hrognahús sem verður tilbúið í júní á þessu ári. Stöðin verður útbúin með nýjustu tækni og mun gera okkur kleift að auka framleiðsluna allan ársins hring á hrognum til viðskiptavini okkar um allan heim. Þar á meðal nýju laxeldisfyrirtækin í landeldi sem er í mikilli sókn í heiminum,“ segir Jónas.