„Það voru frábærar aðstæður, logn og sléttur sjór. Þetta tókst alveg ljómandi vel, við erum bara vel sáttir,“ segir Smári Gestsson, umsjónarmaður björgunarskipsins Varðar II. Hann var einn þriggja í áhöfninni þegar skipið kom vélarvana flutningaskipi til bjargar í gærkvöldi.
Sérstaka athygli vekur að Verði II, sem telur 16 metra, hafi tekist að aðstoða Falksea sem er 90 metra skip. „Sumir vilja meina að þetta sé einsdæmi að björgunarskip af þessari gerð dragi 3.000 tonna skip,“ segir Smári.
Björgunarskipið Vörður II.
Ljósmynd/Landsbjörg
Myndum reyna að hanga í honum
Spurður hvort áhöfnin hafi verið smeyk við útkallið svarar hann:
„Nei nei. Ég sagði við Gæsluna í nótt þegar þeir hringdu í mig að við myndum reyna að hanga í honum svo hann myndi ekki fara upp í fjöru. Þeir voru með einhverjar efasemdir um að við myndum ráða við hann, en svo sáum við fljótlega að við réðum alveg við að draga hann. Við höfðum þetta af en veðrið skipti miklu máli í þessu, þetta hefði ekki gengið eins vel ef eitthvað hefði verið að veðri.“
Smári Gestsson, umsjónarmaður björgunarskipsins Varðar II.
Ljósmynd/Aðsend
Smári segir Falksea hafa beðið í einn og hálfan sólarhring eftir að veðurskilyrði bötnuðu svo skipið gæti landað 800 tonnum af salti, sem skipið gerði í gær. Það hafi síðan lagt frá bryggju um ellefu og siglt í um klukkustund áður en beðið er um aðstoð.
Alla jafna eru þrír til fimm í áhöfn á Verði II, útskýrir Smári sem segir í svona tilfellum getur verið betra að búa yfir stærra björgunarskipi. „Allavega skip með stærri vélar.“
Hins vegar sé erfiðara að manna björgunarskip sem eru yfir fimmtán metra þar sem slíkt krefst aukinna skipstjórnarréttinda.
Falksea var ekki komið langt frá höfninni þegra þurfti að koma honum til bjargar.
Skjáskot/MarineTraffic