„Loðnan er vinsæll matur í Japan. Hún er mest söltuð og þurrkuð og síðan hituð á pönnu eða í ofni. Loðnan er borðuð eins og hvert annað snakk og oft drukkinn bjór með,“ segir Takaho Kusayanag, fulltrúi japansks loðnukaupanda, á vef Síldarvinnslunnar.
Fulltrúinn, sem alla jafna er þekktur sem Kusa, er staddur í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað til að fylgjast með loðnuvinnslunni. „Japanir söknuðu þess mjög að fá ekki íslenska loðnu,“ segir Kusa sem er einn þriggja starfsmanna japansks kaupanda sem ný skoða loðnuna sem kemur að landi.
„Ég veit að loðnuleysið hafði slæm áhrif á mörg fyrirtæki hér á Íslandi og sömu sögu er að segja frá Japan. Fyrirtækin þar sem vinna Íslandsloðnuna lentu í verulegum erfiðleikum,“ útskýrir hann.
Fylgst með loðnu í 30 ár
Þekkt er að það er ekki bara loðnan sjálf sem er eftirsótt í Japan, en loðnuhrognin eru mikið notuð í sushigerð.
„Við viljum helst hafa loðnuna með yfir 13% hrognafyllingu. Sú loðna sem veiðst hefur núna hefur hingað til einungis verið með 9-10% hrognafyllingu þannig að við bíðum eftir að hrognafyllingin aukist og það mun gerast fljótlega. Við fylgjumst daglega með þeirri loðnu sem berst að landi og bíðum eftir því að hún verði hæf fyrir okkar markað. Fram að því er framleitt fyrir aðra markaði.“
Kusa er enginn nýgræðingur þegar kemur að loðnunni og kom fyrst til Íslands fyrir um 30 árum. „Ég […] fylgdist í upphafi mest með vinnslu í Vestmannaeyjum, Grindavík, Keflavík og Þorlákshöfn. Undanfarin ár hef ég verið í Neskaupstað. Þar þekki ég orðið allar aðstæður og fólkið þar eru kunningjar mínir og vinir. Það er afskaplega gott að koma til Neskaupstaðar og starfa þar.“