Lagt er til í tveimur frumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi að fellt verður úr gildi svokallað strandveiðigjald sem innheimt er af hverjum strandveiðibát og að fellt verði úr lögum bann við strandveiðum á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.
Frumvörpin voru kynnt á miðvikudag og liggja nú hjá atvinnuveganefnd. Frumvörpin eru endurflutt af Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, og Guðmundi Inga Kristinssyni, þingmanni sama flokks, og óljóst hvort frumvörpin fái þinglega meðferð að þessu sinni.
Fullyrt er í greinargerð með frumvarpinu um að fella niður strandveiðigjaldið að innheimta gjaldsins, sem nemur 50 þúsund krónum á bát, skapi ójafnræði þar sem um er að ræða sértækan skatt sem lagður er á einn útgerðarflokk umfram aðra. „Engin sambærileg gjöld eru lögð á skip sem stunda aðrar veiðar en strandveiðar,“ segir í greinargerðinni og er bent á að þeir sem strandveiðar stunda greiða nú þegar hafnargjöld eins og aðrir.
Strandveiðum „fylgja umtalsverð umsvif í höfnum og kærkomnar tekjur á landsbyggðinni yfir sumartímann en síðustu tvö strandveiðitímabil hefur ekki tekist að fullnýta úthlutaðar aflaheimildir til strandveiða,“ segir í greinargerð vegna frumvarpsins sem ætlað er að heimila veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.
Vísað er til þess að ónýttar heimildir hlaupa á hundruðum milljóna króna og talið að með fjölgun leyfilegra veiðidaga skapist betri grundvöllur fyrir þá sem veiðarnar stunda að hámarka nýtingu þeirra 12 daga sem heimilt er að stunda strandveiðar í hverjum mánuði.
Aðeins tvær umsagnir hafa verið birtar á vef Alþingis vegna frumvarpsins að svo stöddu. Ein þeirra er frá strandveiðifélaginu Krókur, félagi smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu, og fagnar félagið því að létt verði á þessum takmörkunum sem strandveiðum er sett.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggjast hins vegar gegn frumvarpinu og telja samtökin breytinguna „grafa undan sóknarstýringu strandveiðanna. Ekki verður betur séð en að sá afli sem þessum bátaflokki er ætlaður geti þá náðst fyrr á veiðitímabilinu, sem skapar þrýsting á að veiðar verði ekki stöðvaðar við þær aðstæður þegar heildarafli hefur náðst.“
Óttast samtökin að þessi þrýstingur muni skapa grundvöll fyrir að fluttar verði fleiri veiðiheimildir til strandveiðiflotans frá öðrum útgerðarflokkum.
„Flutningsmenn styðja mál sitt með þeim rökum að það sé í þjóðarhag að allur heimilaður þorskafli til strandveiða náist. Við þetta má gera þá athugasemd að hagkvæmara væri og hagstæðara út frá sjónarm iðum byggðafestu, að nýta aflaheimildir þessar í atvinnuveiðum sem stundaðar eru á ársgrundvelli,“ segir í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.