Anna Selbmann er fædd og uppalin í Suður-Þýskalandi, fjarri nokkru hafi. Hún barði sjóinn ekki augum fyrr en hún varð sextán ára og segir það hafa verið ást við fyrstu sýn. Þrátt fyrir það segist Anna samt hafa haft alla tíð mikinn áhuga á hafinu og hvölum.
Í dag vinnur hún að doktorsverkefni sínu við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands um hegðun hvala, nánar tiltekið um hrekki grindhvala gagnvart háhyrningum.
Háhyrningar eru stundum kallaðir úlfar hafsins. Þeir eru almennt taldir efstir í fæðukeðjunni í hafinu og veiða skipulega í hópum. Það kann því að skjóta skökku við að reglulega sést til grindhvala hrekkja háhyrninga í Norður-Atlantshafi, þrátt fyrir að þekkt sé að grindhvalir geti verið bráð háhyrninga en ekki öfugt.
Kenning Önnu gengur út á að hljóð gegni meginhlutverki í samskiptum grindhvala og háhyrninga og rannsakar hún meðal annars hvort breytingar verði á köllum háhyrninga í nánd við grindhvali og hvort munur sé á hljóðum og hljóðröðum háhyrninga á ólíkum stöðum í kringum landið.
„Að fylgjast með samskiptum grindhvala og háhyrninga er töfrandi að mörgu leyti. Það kann að hljóma óhugsandi að háhyrningar, helstu rándýr hafsins, forðist aðra hvali og flýi þá jafnvel á harðaspretti. Það vekur margar spurningar; hvers vegna hrekkja grindhvalir háhyrninga svona? Er það samkeppni um fæði, eða er þetta eineltishegðun? Hvers vegna hræðast háhyrningarnir grindhvalina, hvað kallar á þessi viðbrögð? Hver eru áhrif þessara samskipta á háhyrninga? Vitandi það að hljóðmerki eru mikilvæg báðum tegundum rannsaka ég nú hvaða hlutverki hljóðmerki gegna í þessum samskiptum og hvort þau valdi þessum viðbrögðum hjá háhyrningum,“ útskýrir Anna í samtali við Morgunblaðið.
Anna segir atferlisfræði dýra mikilvæga ekki síst þegar fram í sækir vegna loftslagsbreytinga. „Vegna þeirra getur dreifing og fjöldi dýra breyst svo heimar tegunda sem áður sköruðust ekki geta farið að mætast á nýjum búsvæðum og þar með myndað áður óþekkt sambönd milli dýra.“
Sem dæmi nefnir Anna að grindhvalir við Vestmannaeyjar hafi áður verið sjaldgæf sjón en í dag eru þeir tíðir gestir yfir sumartímann.