Áætlað er að 640 bein störf verði við fiskeldi á Vestfjörðum þegar unnt verður að nýta hámarkslífsmassa fjarðanna samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Til viðbótar koma 390 óbein störf og verða störf við fiskeldi því samtals liðlega eitt þúsund. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að allt að 1.850 íbúar Vestfjarða byggi afkomu sína að einhverju leyti á fiskeldinu, eða allt að 20% íbúa.
Áætlun um framleiðslu í fiskeldi og fjölda starfa kemur fram í skýrslu um greiningu á áhrifum fiskeldis á Vestfjörðum sem KPMG hefur gert fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga og Vestfjarðastofu og birt er á vef síðarnefndu samtakanna. Skýrslan er í raun uppfærsla á skýrslu sem gefin var út á árinu 2017.
Fiskeldi vex hratt á Vestfjörðum og Austfjörðum og er að verða ein af grunnstoðum atvinnulífsins í þessum landshlutum, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum, og verður það enn frekar á næstu árum, ef fram fer sem horfir.
150 störf nú þegar
Tvö stærstu fyrirtækin í sjókvíaeldi á Vestfjörðum, Arnarlax og Arctic Fish, framleiddu rúman helming alls eldislax sem fluttur var út frá Íslandi á síðasta ári. Hjá þeim störfuðu um 170 manns í lok ársins 2019, þar af 150 á Vestfjörðum. Þeim hefur fjölgað síðan.
Hafró hefur gefið út að hámarkslífmassi vegna sjókvíaeldis í fjörðum Vestfjarða sé 64.500 tonn. Miðað við 80% nýtingu á hámarkslífmassa má búast við að árleg framleiðsla verði um 51 þúsund tonn, þegar leyfin verða nýtt að fullu. Áætlað söluverðmæti afurðanna er 46 milljarðar króna og að skattsporið verði 2,2 milljarðar og þar af renni um 1,1 milljarður til sveitarfélaganna. Þá er áætlað að launagreiðslur verði 5 milljarðar króna, aðeins vegna beinna starfa við fiskeldi.