Guðmundur H. Hannesson hóf á síðari hluta síðasta árs störf sem framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, en hann er enginn nýgræðingur í greininni enda tók Guðmundur þátt í að stofna félagið árið 1993. Hann segir það hafa verið mikla áskorun að taka þátt í uppsetningu nútíma frystihúss eins og það sem var reist fyrir Samherja á Dalvík.
Þetta var auðvitað risaverkefni hjá Samherja og þessi hluti verkefnisins var boðinn út á evrópska efnahagssvæðinu. Það fór þá mikið útboðsferli í gang og vorum við í samkeppni við stóra keppinauta meðal annars í Danmörku og Þýskalandi,“ segir Guðmundur sem telur viðurkenningu fyrir fyrirtækið að hafa verið valið í verkið.
„Við stóðum sem betur fer uppi sem sigurvegarar og valdir út frá þessu útboði. Það eru menn bæði að horfa til lausnarinnar sem er verið að bjóða, þeim var mjög umhugað um góða lausn og gott nýtingarhlutfall og lágan rekstrarkostnað.“
Hann segir það aðeins lítinn bút af heildarpakkanum að hafa hlotið verkefnið því strax tók við heilt ár í hönnunarvinnu enda margir mismunandi aðilar sem koma að húsinu í heild. „Það var mikið verk bara að koma saman heildarlausninni því þetta spannaði allan kæli- og frystibúnað í húsinu. Það þarf mikla samþættingu við aðra verkþætti svo það verði ekki árekstrar.“
Spurður hvað standi sérstaklega upp úr í þessu verkefni svarar Guðmundur: „Það sem er svolítið skemmtilegt þarna er að við erum að nýta bæjarlækinn í gegnum Dalvík til þess að fjarlægja varmaorkuna sem ekki nýtist. Það er gríðarleg endurnýtingarkrafa á varmanum frá frystikerfinu og hann er nýttur til upphitunar á öllum öðrum rýmum hússins, en það er alltaf ákveðið hlutfall sem þarf að kasta út.“
Hann segir þá hugmynd að nýta lækinn ekki hafa verið til staðar í upphafi heldur hafi hún fæðst í undirbúningsferlinu. „Það var fyrst miðað við að kæla með sjó en síðan var sérstaklega skoðað hvernig hægt væri að nýta vatnið sem rennur þarna framhjá frystihúsinu. Það tókst að hanna hlutina þannig að við þurfum ekkert loft eða sjó, við nýtum bara bæjarlækinn. Það er mjög skemmtilegt að þetta skyldi ganga svona vel upp og kerfið keyrir verulega vel svona.“
Kælismiðjan Frost er í raun alþjóðlegt fyrirtæki með verkefni víða um heim og hefur verið í töluverðum vexti undanfarin ár, sérstaklega í Rússlandi.
„Síðustu fimmtán ár hefur verið mjög myndarlegur vöxtur hjá félaginu og hafa erlend verkefni aukist ár frá ári og þau stækka líka milli ára. [...] Við höfum tekið þátt í nýsmíðum bæði fyrir íslenskar og erlendar útgerðir og byggingu nýrra verksmiðja. Þetta útheimtir gríðarlega tæknilega þekkingu,“ segir Guðmundur. Sem hluti af erlendu markaðsstarfi munu meðal annars verða kynntar þær lausnir sem hafa verið notaðar í frystihúsi Samherja á Dalvík, útskýrir hann.
Guðmundur segir mikla þróun eiga sér stað í kælingabransanum, sérstaklega í því að finna leiðir til þess að búa til lausnir sem bæði uppfylla þarfir viðskiptavina og á sama tíma fylgja þeim reglum sem yfirvöld í hverju ríki setja. „Kælimiðlar eins og koltvísýringur og ammoníak eru í ákveðnum áhættuflokkum. Í Rússlandi er til að mynda ammoníak í mjög háum áhættuflokki og flokkast í raun meðal sprengiefna. Þar eru gríðarlega strangir staðlar sem þarf að fylgja í hönnunarferlinu.“
Þá séu sífellt að aukast kröfur til kælikerfa byggðar á loftslagssjónarmiðum og bendir Guðmundur á að tækni sem nýtir eldri kælimiðla sé að hopa. Þróunin hefur verið í þá átt að stöðugt sé að vera að lækka losunarviðmiðin.