ÍV SIF Equity Farming ehf. (ÍSEF) festi nýverið kaup á meirihluta í fiskeldisfyrirtækinu ÍS 47 ehf. á Flateyri sem hefur byggt upp þorsk- og regnbogasilungseldi í Önundarfirði. ÍSEF er eignarhaldsfélag í eigu hóps íslenskra fjárfesta sem hefur að meginmarkmiði að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi og eru það Íslensk verðbréf sem halda utan um rekstur þess.
„Þetta er frábært fyrir íslenskt fiskeldi, Flateyri og svæðið í heild,“ segir Gísli Jón Kristjánsson, stofnandi ÍS 47. Hann kveðst hvergi hættur þrátt fyrir að hafa selt stóran hlut í félaginu og fer hann ásamt eiginkonu sinni, Friðgerði Ómarsdóttur, nú með 16% hlut í félaginu sem hefur verið lítið fjölskyldufyrirtæki frá stofnun árið 2003. Félagið fékk fyrst leyfi til eldis á regnbogasilungi í Önundarfirði árið 2013 og setti þá út 19.000 seiði.
Það var í janúar sem Matvælastofnun gaf út nýtt rekstrarleyfi fyrir eldið í Önundarfirði og fimmfaldaðist heimilaður hámarkslífmassi ÍS 47 í firðinum úr 150 tonnum af þorski og 50 tonnum af regnbogasilungi í 1.000 tonn af þorski og regnbogasilungi. „Þetta er í raun og veru bara byrjunin,“ segir Gísli Jón, en hann hefur áður lýst því yfir að stefnt sé að því að stækka eldið í Önundarfirði í 2.500 tonn í samræmi við burðarþol.
Seiði til útsetningar í vor
Þá telur Gísli Jón aðkomu ÍSEF til þess fallna að styðja við stækkunaráformin og hafa nýir hluthafar lagt félaginu til aukið hlutafé. Í tilkynningu segjast þeir telja að „rekstur félagsins geti til framtíðar stutt duglega við atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og þá sérstaklega á Flateyri. Félagið hefur þegar tryggt sér seiði til útsetningar í vor og munu fjárfestingar í frekari búnaði og mannaráðningar fylgja í kjölfarið.“ Kveðast nýir eigendur meirihluta í ÍS 47 sjá „tækifæri í mögulegu samstarfi eða sameiningum við önnur félög sem stunda fiskeldi á norðanverðum Vestfjörðum.“